Ríkisstjórnin og gula spjaldið
Stór hluti sveitarfélaga hefur fengið bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þar er þeim veitt viðvörun vegna þess að þau hafa farið fram úr lágmarksviðmiðum jafnvægis- og skuldareglu sveitarstjórnarlaga.
Staða margra sveitarfélaga hefur farið hratt versnandi eftir Covid, m.a. vegna mikilla vaxtahækkana. Vegna þessarar stöðu er fyrirsjáanlegt að mörg sveitarfélög þurfa að draga úr þjónustu við íbúa til þess að uppfylla fjármálareglur. Þessar reglur voru þó teknar úr sambandi í Covid og taka ekki aftur gildi fyrr en árið 2025. Það hefur reynst sveitarfélögum erfitt að fá fram vitræna umræðu við ríkið um tekjustofna sveitarfélaganna sem ekki eru í neinu samræmi við þá þjónustu sem þau veita og má þar nefna málaflokk fatlaðra sem ekki er að fullu fjármagnaður.
Það er þó ekki eingöngu vegna sveitarfélaganna sem þessar fjármálareglur voru teknar úr sambandi. Ríkisstjórnin hefur tekið úr sambandi sínar eigin reglur sem kveða á um að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli megi ekki fara yfir 2,5% af landsframleiðslu. Þær kveða líka á um að heildarskuldir að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum séu lægri en 30% af landsframleiðslu.
Nú liggur fyrir fjármálaáætlun og umsagnaraðilar virðast allir sammála um að hún nái alls ekki utan um þá stöðu sem uppi er, þ.e. mikla þenslu og mikla verðbólgu sem farin er að sliga sveitarfélögin, fyrirtækin og heimilin í landinu. Í raun virðist enginn vera ánægður með fjármálaáætlunina nema ríkisstjórnin sjálf.
Það er eins og þjóðarbúskapurinn sé bara á sjálfstýringu og ekki verið að taka á þeim vanda sem við blasir. Væntanlega er það vegna ólíkrar afstöðu þeirra flokka sem mynda þessa ríkisstjórn að ekki tekst setja fram fjármálaáætlun sem tekur á þeim vanda sem allir virðast sjá nema ríkisstjórnin.
Ríkisstjórnin þarf ekki síður á áminningu að halda en sveitarfélögin vegna viðvarandi halla og skuldasöfnunar sem mun bitna á komandi kynslóðum.
Þess vegna spyr ég: Hver ætlar að senda ríkisstjórninni viðvörunarbréf?
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.