Ríkisábyrgð á Icelandair
Fjárlaganefnd Alþingis fjallar nú um ríkisábyrgð til handa Icelandair Group upp á fimmtán milljarða króna vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við veirufaraldurinn. Málið kemur til afgreiðslu á Alþingi í þessari viku.
Árið 2020 er versta ár í sögu flugrekstrar í heiminum. Telja má afrek að félagið hafi staðið af sér þá storma sem hafa geisað undanfarna mánuði. Framundan er fjárhagsleg endurskipulagning og öflun nýs hlutafjár til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Aðkoma ríkisins er háð því að fullnægjandi árangur náist í þeim efnum. Mikilvægir áfangar eru nú þegar í höfn. Búið er að semja við allar flugstéttir og gilda samningar til 2025. Félagið hefur fengið greiddar skaðabætur frá Boeing-flugframleiðandanum vegna svonefndra MAX-véla. Auk þess hefur félagið náð mikilvægum samningum við lánveitendur.
Lánafyrirgreiðsla ríkisins er ætluð til þrautavara. Ekki er víst að hún verði nýtt og vonandi þarf ekki að koma til þess. Fyrirtækið getur farið inn í sumarið 2021 án þess að draga á lánsheimild ríkisins. Það var rekið með hagnaði árin 2011 til 2018 og á árunum 2011 til 2019 skilaði það þremur milljörðum króna í ríkissjóð. Lausafjárstaða félagsins var sterk fyrir veirufaraldurinn. Mikilvægt er að hafa þetta í huga frá sjónarhóli skattgreiðenda. Lánsheimildin er nauðsynleg svo takist að safna því hlutafé sem þarf til að tryggja reksturinn. Stjórnvöld taka mikla áhættu ef ekki verður af stuðningi ríkisins í formi lánsheimildar. Margt getur tapast fyrir þjóðarbúið ef félagið yrði gjaldþrota. Umfang þess er mikið í íslensku hagkerfi. Það er tæknilega flókið að endurreisa gjaldþrota félag. Margt tapast í því ferli.
Innan fyrirtækisins er mikill mannauður. Þar starfar fólk sem hefur lagt mikið á sig til þess að gera veg þess sem mestan. Það hefur á að skipa mikilvægri þekkingu og reynslu sem mun skipta sköpum í því að viðspyrnan verði öflug þegar veirufaraldrinum lýkur. Þetta skiptir miklu máli fyrir samfélagið.
Hlutverk ríkisins mjög mikilvægt
Við Íslendingar erum verulega háðir flugsamgöngum og meira en margar aðrar þjóðir. Ísland er eyland sem á allt undir því að hér ríki traustar og samfelldar samgöngur fyrir vöru- og fólksflutninga. Hér er um ríka samfélagslega hagsmuni að ræða. Auk þess umtalsverða beina fjárhagslega hagsmuni fyrir fjölda launafólks og fyrirtækja. Árið 2019 voru rúmlega 4.700 stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þær raddir hafa heyrst, meðal annars á Alþingi, að fyrirgreiðsla ríkisins eigi að vera í formi hlutafjár í fyrirtækinu eða ríkið eigi jafnvel að taka það yfir. Þessu er ég ósammála. Hlutafjárleiðin er áhættusöm. Saga opinbers eignarhalds í flugfélögum er ekki uppörvandi. Þetta sýnir reynslan frá flestum nágrannalöndum.
Snertir Suðurnesin sérstaklega
Mál þetta snertir Suðurnesin sérstaklega. Árið 2019 störfuðu um 400 manns í nýju flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Atvinnuleysi er hvergi hærra á landinu en á Suðurnesjum. Í Reykjanesbæ er það um 19%. Hjá fyrirtækinu starfa fjölmargar konur svo dæmi sé tekið. Á Suðurnesjum er nú ein kona af hverjum fimm atvinnulaus.
Með lánsheimildinni er verið er að skapa grundvöll fyrir því að fjárfestar vilji koma að félaginu á erfiðum tímum. Það hefur afleiðingar ef stjórnvöld sitja aðgerðalaust hjá.
Hlutverk ríkisins er mjög mikilvægt.
Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður
Miðflokksins og situr
í fjárlaganefnd Alþingis.