Ríkið sýni samfélagslega ábyrgð
- Burt með „náttúrupassa“, segir Guðmundur Rúnar Lúðvíksson.
Ég hef ekki farið dult með það að ég er svarinn andstæðingur enn meiri skattheimtu hverskonar, sbr. nýju útspili á skatti sem kalla á „náttúrupassi“. Þetta útspil er í raun svo vitlaust að það vekur undrun mína hversu máttlaus íslenska þjóðin er í andmælum. Enn og aftur skal seilst í vasa þjóðarinnar en nú í skjóli þess að erlendir ferðamenn vilji heimsækja land og þjóð.
Sem betur fer, og því ber að fagna, að nú þegar hafa margir af því ágætis tekjur og atvinnu af því að þjónusta ferðamenn og atvinnugreinin vex og dafnar með hverju ári.
En einn aðili, sem líka hefur verulegar tekjur af og sennilega meir en allir hinir, virðist ætla að koma sér undan þátttöku og samfélagslegri ábyrgð á þessari mikilvægu atvinnugrein. En það er einmitt ríkissjóður sjálfur - ríkið. Ríkissjóður hefur stóraukið tekjur sínar með auknum áhuga ferðamanna á Íslandi. Tekjur ríkisins eru ekki neinir smáaurar í gegnum skattheimtu á öllum stöðum, hvort sem það er af matvörum, hótelum, veitingum, innflutningi á rútum, vörum eða öðru sem ferðamenn þurfa að greiða fyrir.
Það væri því engin frekja að ætlast til þess að ríkið skilaði þó ekki væri nema hluta af þessum tekjum til að byggja upp þá staði sem þörf er á og kalla eftir aðstoð - og um leið þá auka sínar tekjur. Í stað þess að endalaust seilast í vasa þjóðarinnar.
Það gengur ekki upp að íslenskir stjórnmálamenn geti endalaust lagt fram vitlausar skattheimtur með vitlausum lausnum, með rökstuðningi sem í mínum huga gengur bara ekki upp.
Við skulum hafa það hugfast að af tekjunum sem ríkið er að fá í gegnum skattheimtu á ferðamönnum, þá nota ferðamenn ekki skóla, heilbrigðiskerfið eða þá almennu þjónustu sem við íslenskir þegnar njótum með skattgreiðslum okkar í gegnum þessa skatta. Því segi ég það, burt með hugmyndina að „náttúrupassa“. Ríkið þarf líka að sýna samfélagslega ábyrgð í verki, en ekki með aukinni skattheimtu á íslenska þjóð í skjóli misvitrar rökleysu.
Guðmundur R Lúðvíksson, myndlistamaður m.m
Reykjanesbæ.