Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ríkið og Suðurnesjamenn
Fimmtudagur 8. mars 2018 kl. 06:00

Ríkið og Suðurnesjamenn

Á Alþingi bíður umræðu tillaga mín um að fulltrúar ráðuneyta og sveitarfélagana á Suðurnesjum vinni  tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu.

Við Suðurnesjamenn eigum að gera skýra kröfu um að heilbrigðisþjónusta, símenntun, skólar, samgöngur og þjónusta við þá sem eldri eru, verði í takt við fjölda og aldurssamsetningu íbúa svæðisins og sambærileg við önnur landsvæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár, eða um tæplega 5.000 manns á sex árum, en hlutfallslega mest síðastliðin tvö ár. Slíkri fólksfjölgun fylgja óhjákvæmilega margvíslegar áskoranir fyrir sveitarfélögin á svæðinu sem sveitarstjórnarmenn þurfa að takast á við. Stór hluti nýrra íbúa er af erlendu bergi brotinn, talar ekki íslensku og þarfnast af þeim sökum meiri aðstoðar. Fólksfjölgunin reynir á heilbrigðisþjónustuna og aðra innviði sem stóðu veikir fyrir þegar að herða tók á fólksfjölguninni. 
Í næstu ríkisfjármálaáætlun sem leggja á fram á Alþingi 1. apríl, verður að sjá þessari sjálfsögðu kröfu merki.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn úr öllum stjórnmálaflokkum verða að standa saman um þá kröfu og láta kröftuglega í sér heyra ef fjármálaáætlunin bætir ekki verulegu fjármagni í þjónustu ríkisins við íbúa Suðurnesja strax á næsta ári. Auk þess er mikilvægt að fulltrúar ráðuneyta og sveitarfélaganna á Suðurnesjum vinni tímasetta og fjármagnaða áætlun um úrbætur. Vonandi kemst tillagan um það á dagskrá Alþingis sem allra fyrst.

Ekki í fyrsta sinn

Í nóvember 2014 lagði ég fram svipaða tillögu sem ekki fékk stuðning Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna og náði því ekki fram að ganga. Í greinargerð með þeirri tillögu var bent á það augljósa að samfélögin á Suðurnesjum höfðu ekki að fullu náð sér af þeim áföllum sem gengið hafa yfir svæðið undanfarinn rúman áratug, þ.e. brotthvarfi hersins árið 2006 og efnahagshruni árið 2008. Þessir atburðir höfðu gríðarleg áhrif á stöðu Suðurnesjamanna. Aðkallandi var að bregðast við ástandinu ekki síst þegar enn bættist við vandamál íbúa svæðisins þar sem stærsta bæjarfélagið átti við stórkostlega fjárhagserfiðleika að stríða. Nú hefur staða Reykjanesbæjar batnað undir forystu Samfylkingarinnar, Beinnar leiðar og Frjáls afls en fjárframlög ríkisins eru enn langt undir því sem þörf er á. Það er ekki nóg að sveitarstjórnarmenn vilji búa vel að íbúum, ríkið verður að standa við sitt.

Vonandi fær tillagan sem nú bíður umræðu, stuðning stjórnarþingmanna og aðgerðir fylgi þeim fögru orðum sem þeir létu falla á fundi um fjárframlög ríkisins til þjónustu við íbúa á Suðurnesjum saman borin við önnur landsvæði, sem haldinn var í Duushúsum á dögunum.
Ásbrú

Þessu til viðbótar má nefna að með lögum sem sett voru árið 2006 við brotthvarf hersins, var Reykjanesbæ gert skylt að gefa ríkinu afslátt af fasteignagjöldum vegna yfirgefinna fasteigna frá hernum sem ríkið hafði eignast. Sá afsláttur taldi í árslok 2016 rúman hálfan milljarð króna. Á sama tíma hefur ríkið selt eignir sem herinn skildi eftir, fyrir marga milljarða króna. Það kostar sitt að fara í nauðsynlegar framkvæmdir svo Ásbrú verði í raun aðlaðandi hverfi Reykjanesbæjar og eðlilegt að ríkið leggi þar sitt að mörkum og endurgreiði Reykjanesbæ í það minnsta afsláttinn í það verkefni.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi