Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reynsla og nýjar raddir til forystu
Fimmtudagur 5. mars 2009 kl. 15:35

Reynsla og nýjar raddir til forystu

Miklar breytingar hafa orðið á samfélagi okkar á skömmum tíma. Breytingar sem enginn gat séð fyrir við síðustu alþingiskosningar. Enn á ný er komið að því að velja þurfi fólk á lista til kosninga, og mikilvægt að vel til takist. Nú þurfa að heyrast nýjar raddir í bland við reynslu þeirra er áður hafa setið á Alþingi.

Að undanförnu höfum við fylgst með fjölda vel hæfra einstaklinga bjóða sig fram til starfa á Alþingi í tengslum við prófkjör Samfylkingarinnar sem nú er hafið og opið öllum. Einstaklinga sem koma frá flestum byggðakjörnum okkar kjördæmis. Svoleiðis á það líka að vera. Sá listi sem upp verður stillt á endanum verður að vera spegilmynd okkar kjördæmis og tryggja að þar fái að hljóma raddir bæði karla og kvenna.  

Björgvin G. Sigurðsson er einn þeirra manna er nú bjóða sig fram til forystu og til þess að leiða lista okkar Samfylkingarmanna hér í Suðurkjördæmi. Hann tók af skarið og sá að við það ástand sem ríkti var ekki unað.  Nauðsynlegt væri að leita til þjóðarinnar á ný  hvað áframhaldið varðaði og umboð þeirra er starfa á Alþingi skyldi endurnýjað svo hægt yrði að halda áfram.

Björgvin hefur verið tíður gestur hér í Sandgerði og sýnt skólamálum okkar mikinn áhuga, jafnframt því sem hann hefur tekið hverri bón okkar þar sem lausna hefur verið þörf af ljúfmennsku og áhuga. Björgvin hefur unnið vekl fyrir okkar kjördæmi á þeim  tíma sem hann hefur setið sem þingmaður okkar.

Hann er sannfærður jafnaðar og félagshyggjumaður sem m.a. hefur barist fyrir réttlátara kvótakerfi og eignarhaldi þjóðarinnar á þeim auðlindum er þjóðin þarf nú að byggja sína framtíð á. Hann hefur í gegnum starf sitt sýnt að hann er rétti maðurinn til að leiða lista okkar Samfylkingarmanna í kjördæminu.

Oddný G. Harðardóttir bæjarstjóri í Garði er ný rödd á sviði landsmálanna en virt á sviði sveitarstjórnarmála þar sem hún hefur meðal annars starfað sem formaður Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum. Oddný hefur í gegnum starf sitt sem bæjarstjóri í Garði fylgt hagfræði hinnar hagsýnu  húsmóður og gætt þess að bæjarsjóður Garðsins stæði undir þeim framkvæmdum sem í hefur verið ráðist. Það sýnir sterk staða þess bæjarfélags í dag hvernig til hefur tekist.

Oddný G. Harðardóttir er verðugur fulltrúi okkar Suðurnesjamanna og þeirra nýju radda sem á Alþingi þurfa að hljóma. Ég skora á alla þá er hyggjast taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar að kjósa þá tvo aðila sem ég hef hér fjallað um og tryggja að bæði reynslan og nýjar raddir verði í því forystuhlutverki sem jafnaðar og félagshyggjufólk vilja leiða fram til breytinga þess þjóðfélags er við byggjum.

Guðlaug Finnsdóttir
Grunnskólakennari, Sandgerði.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024