Reynsla í bland við endurnýjun í þágu bæjarbúa
Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar fer fram n.k. laugardag. Fjórtán frambærilegir einstaklingar gefa kost á sér, karlar og konur á öllum aldri, og hefur verið gaman að fylgjast með snarpri og drengilegri baráttu þeirra í aðdraganda prófkjörsins.
Það er fyrirsjáanleg mikil endurnýjun í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þar sem fimm af sjö fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur verið samstíga og unnið þrekvirki á síðustu árum við oft erfiðar aðstæður. Stöðug barátta hefur verið háð fyrir auknum tækifærum, atvinnuuppbyggingu og bættum lífskjörum bæjarbúa, barátta sem hvergi sér fyrir endann á.
Það er mikilvægt að saman fari reynsla og endurnýjun til þess að tryggja að þau fjölmörgu mikilvægu verkefni sem á döfinni eru fái áframhaldandi brautargengi. Nýtt fólk kemur inn með ferskar áherslur og reynsluboltarnir tryggja góða samfellu í verkefnum bæjarins. Ég fagna því sérstaklega að tveir sterkir og reynslumiklir forystumenn okkar, bæjarstjórinn og formaður bæjarráðs Böðvar Jónsson, gefi áfram kost á sér til þess að fara fyrir öflugum hópi nýliða á næsta kjörtímabili. Ég er sannfærð um að undir styrkri forystu þeirra muni Sjálfstæðisflokkurinn ná góðum árangri í kosningunum í vor, til hagsbóta fyrir bæjarbúa.
Ég hvet sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ – alla sem einn – til þess að mæta á kjörstað og taka þátt í að stilla upp sterku sigurliði fyrir kosningarnar í vor.