Reynsla, þekking og framtíðarsýn
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fram á morgun laugar-daginn 14. mars. Það er afar mikilvægt fyrir okkur sjálfstæðismenn að góð þátttaka í prófkjörinu náist í Suðurkjördæmi. Ég vil hvetja sjálfstæðismenn til að taka þátt í prófkjörinu og velja öflugan og sigurstranglegan lista fyrir kosningarnar sem framundan eru.
Undanfarin tvö ár hef ég setið á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi og markvisst unnið að málefnum kjördæmisins . Ég hef kynnst góðu fólki sem leggur metnað sinn í að vinna gott starf af ýmsu tagi fyrir samfélagið. Af kynnum mínum við fólkið í kjördæminu og þeim verkefnum sem verið er að vinna að, hef ég enn frekar sannfærst um að framtíðartækifærin eru í Suðurkjördæmi. Auðlindir til lands og sjávar auk þess mikla mannauðs sem fellst í fólkinu sjálfu sem býr í kjördæminu. Það þarf að velja fólk með þekkingu, reynslu og framtíðarsýn á framboðslistann fyrir komandi kosningar, sem er tilbúið að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Ég býð krafta mína fram til þeirra starfa.
Ég á að baki víðtæka reynslu í sveitarstjórnarmálum og á Alþingi hef ég átt sæti í iðnaðarnefnd, viðskiptanefnd og fjárlaganefnd og unnið að framgangi verkefna í Suðurkjördæmi innan þessara nefnda.
Ég óska eftir stuðningi í 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjörinu sem fram fer á morgun.
Með góðum kveðjum
Björk Guðjónsdóttir alþingismaður.