Reynir sækist eftir 2.-4. sæti D-lista
Reynir Þorsteinsson sækist eftir 2.- 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar.
Á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem haldinn var á Höfðabrekku í Mýrdal 13.- 14. október s.l. gaf ég það út að ég sæktist eftir 5.- 6. sæti á listanum. Eftir áskoranir þar um hef ég endurskoðað þá ákvörðun mína og sækist því hér með eftir 2.- 4. sæti eins og fyrr segir. Ég hef langa reynslu af sveitarstjórnarmálum almennt. Frá 1997 hef ég meira og minna starfað við eigin rekstur sem skipasali og hef víðtæka reynslu af sjávarútvegsmálum almennt. Það dylst engum að reynsla og þekking á þessari mikilvægustu atvinnugrein Íslands er ekki mikil innan veggja Alþingis. Með framboði mínu mun ég leggja áherslu á:
Að vinda ofan af þeirri óáran sem framkomið og samþykkt lagafrumvarp um veiðileyfagjald er, sem og frumvarpinu um stjórn fiskveiða.
Að beita mér fyrir því að gjaldmiðill okkar verði lagður niður í þeirri mynd sem hann er og eingöngu stuðst við rafrænan gjaldmiðil.
Að beita mér fyrir eflingu löggæslu í landinu og heimild fyrir forvirkum rannsóknarheimildum.
Að beita mér fyrir eflingu atvinnuuppbyggingar og þá um leið bættum hag fólks og afkomu. Sérstaklega þarf að horfa til Reykjaness sem er enn að glíma við fólksflótta, atvinnumissi, hrun á fasteignamarkaði og glataða framtíðarsýn eftir efnahagshruni 2008.
Hér er fátt eitt nefnt sem er mér hugleikið að bæta úr.
Garður, 23. október 2012
Reynir Þorsteinsson