Reyklaus börn
Alþjóða reyklausi dagurinn 31. maí er á laugardaginn. Nú er ástæða til að staldra við. Reykingar er dauðans alvara. Nokkur hundruð Íslendinga deyja á ári hverju af völdum reykinga og þúsundir þjást vegna lungna- og æðasjúkdóma og krabbameins sem reykingar eiga verulega sök á. Flestir eiga ættingja eða náinn vin sem þjáist eða er þegar látinn af völdum reykinga.
Ég vil í þessum pistli beina athyglinni að börnum, enda er dagur barnsins nýafstaðinn.
Ég er kennari í grunnskóla. Við kennum um afleiðingar reykinga og gerum ýmislegt til að halda börnunum reyklausum. Við komum í veg fyrir að þau reyki í skólanum og á skólalóð en erfitt er fyrir okkur að stjórna því sem gerist þar fyrir utan. Nokkrir unglingar eru orðnir háðir reykingum og geta ekki hætt jafnvel þótt vegleg verðlaun séu í boði. Mér finnst leitt að horfa upp á það. Þau eru of ung til að mega kaupa tóbak en komast samt yfir það og geta einhvern vegin fjármagnað kaupin á þessum dýra og hættulega varningi.
Meirihluti þessara barna eiga foreldra sem reykja, enda hefur komið í ljós í rannsóknum að það er þrefalt líklegra að barn foreldra sem reykja reyki sjálft. Börn á öllum aldri eiga foreldra sem reykja ofan í þau heima eða í bílnum, en vita þó líklega að óbeinar reykingar reynast því skaðlegri sem menn rannsaka þær meira. En tóbakið er harður húsbóndi þeirra sem það hefur náð tökum á og dugir skynsemin þar skammt. Mér finnst allaf sorglegt að finna reykingalykt af hári og fötum ungra barna.
Tóbak er fíkniefni og mjög ávanabindandi. Í nýlegum rannsóknum hefur komið í ljós að einungis þriðjungur reykingafólks getur hætt af sjálfsdáðum. Það er viðurkennt að meirihluti alkóhólista þurfa sérstaka aðstoð til að hætta og nú er ljóst að sama á við um reykingafólk. Nú þarf að þróa og efla meðferðarúrræði fyrir reykingarfólk og kynna vel þau úrræði sem eru til staðar.
Hvert getur fólk leitað eftir aðstoð? Mér kemur fyrst í hug reyklausi síminn, 800 6030, opinn síðdegis dag hvern. Símaþjónustan er ókeypis og ráðgjöf veita hjúkrunarfræðingar sem hafa langa reynslu af því að aðstoða fólk sem vill hætta tóbaksnotkun og að halda reykleysið út. Þeir veita persónulega ráðgjöf, byggðri á reykingasögu þess sem hringir og þörfum hvers og eins. Þeir bjóða eftirfylgni, hvatningu og stuðning. Einnig er hægt að leita til heilsugæslunnar og ýmsir aðilar bjóða upp á námskeið, svo sem krabbameinsfélagið, Guðjón Bergmann o.fl.
Í ljósi þess hve skaðlegar reykingar eru ætti það að vera réttur hvers barns að geta andað að sér hreinu, reyklausu lofti. Ég skora því á foreldra sem enn reykja að hefja nú markvissan undirbúning þess að losa sig og börnin sín úr þeim fjötrum og ekki hika við að leita sér aðstoðar. Einnig mættu stjórnvöld og heilbrigðiskerfið taka betur á þessu vandamáli.
Þorvaldur Örn Árnason,
grunnskólakennari og líffræðingur.