Reykjanesskagi - ókeypis ljósmyndabók
You can make a difference, sagði ljósmyndarinn Stephen Johnson einu sinni við mig er við ókum frá Krýsuvík eftir Suðurstrandarveginum í átt að Katlahrauni, þar sem við ætluðum að ljósmynda næst. Við höfðum verið að mynda m.a. Í Trölladyngju og á hverasvæðinu í Seltúni.
Stephen, sem er vel þekktur landslagsljósmyndari, var ákaflega hrifinn af náttúru Reykjanesskagans. Á ferð okkar hafði ég sagt honum frá þeim stórfelldu virkjunaráformum sem uppi eru á Reykjanesskaga. Stephen minnti mig á að myndmálið er oft sterkara en orðið. Ein mynd segði meira en þúsund orð.
Þessi orð hans urðu mér hvatning til að gera það sem ég gæti til að berjast fyrir náttúru Reykjanesskagans – með myndavél að vopni. Síðan þá hef ég farið í ótal gönguferðir um skagann með myndavélina.
Einn anginn af þessari vinnu minni undanfarin ár er rafræn ljósmyndabók sem nú er aðgengileg á netinu hér: http://issuu.com/ellertg/docs/nsve1
Yfir 600 manns hafa skoðað bókina fyrsta sólarhringinn, sem eru afar ánægjuleg viðbrögð. Bókin er frí – allir geta skoðað, deilt og dreift að vild. Sem þið megið alveg gera.
Njótið og deilið.
Baráttukveðjur,
Ellert Grétarsson.