Reykjanesmaraþon 2007: Komdu með !
Þann 1.sept. á Ljósanótt verður haldið Reykjanesmaraþon á vegum líkamsræktarstövarinnar Lífsstíls. Boðið verður upp á þrjár hlaupaleiðir: 3,5 km skemmtiskokk, 10 km og 21,1 km (hálft maraþon), því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hlaupið verður um götur Reykjanesbæjar svo að keppendur njóta þess að skoða bæinn í hátíðarbúning á meðan líkami og sál er hlaðinn orku. Já, það er nefnilega ótrúlega orkugefandi að taka þátt í hlaupi sem slíku. Að takast á við áskoranir að ýmsu tagi eflir mann og styrkir.
Þú þarft ekki að vera hlaupari til að taka þátt, því hver og einn fer á sínum hraða. Sumum þykir betra að ganga en öðrum að hlaupa, en bæði er gott og gilt. Reykjanesmaraþon er frábær byrjun á góðum degi, en líklegt þykir mér að fólk ætli að skemmta sér þennan dag. Líkamleg áreynsla hefur geysilega góð áhrif á andlega líðan, því má búast við því að þú verðir syngjandi glöð/glaður það sem eftir verður af deginum ef þú kemur með í Reykjanesmaraþon.
KOMDU MEÐ á laugardaginn og taktu þátt, þú sérð ekki eftir því. Taktu börnin, afa, ömmu, mömmu, pabba eða góðan félaga með þér. Þú getur líka tekið þátt án þess að ganga eða hlaupa, því að góðir stuðningsmenn á hliðarlínum hlaupaleiðanna eru vel þegnir það gerir hlaupið ennþá skemmtilegra. Gerum Reykjanesmaraþon að eftirsóknum atburði hér í bæ, en það tekst með þinni þátttöku.
Sjáumst á hlaupum og gleðilega Ljósahátíð,
kær kveðja frá Kristjönu Hildi Gunnarsdóttur,
Íþróttafræðingi
Kennari við F.s. og þjálfari í Lífsstíl.