Reykjaneshöfn sekkur
– Friðjón Einarsson skrifar
Ég skrifaði þessa grein vegna hvatningar eins félaga míns á facebook sem kvartar í sífellu undan því hvað við erum öll (lesist X-S) vond við Sjálfstæðisflokkinn.
Undanfarin 12 ár hafa sjálfstæðismenn talað um að það þurfi að eyða peningum til að skapa atvinnu. Sérstaklega hafa þeir í þessu sambandi talað um uppbyggingu í Helguvík en þar hafa loforðin um stóriðju alltaf komið fram rétt fyrir kosningar.
Margsinnis hef ég kvartað yfir áætlunargerðinni og væntingum sem þar hafa komið fram og hvatt til breytinga mörgum sinnum. Ekki hefur það nú dugað vel því venjulega hafa mín ráð verið hunsuð eða ég átalinn fyrir að vera neikvæður og á móti uppbyggingu.
Árið 2006 var tap hafnarinnar 289 milljónir kr og skuldirnar 2.305 milljónir. Tapið var 163 milljónum meira en áætlað var.
Árið 2012 var tap hafnarinnar 667 milljónir króna og skuldirnar 6.736 milljónir kr. Tapið var 161 milljónum meira en áætlað var.
Árið 2013 var tap hafnarinnar 650 milljónir kr og skuldirnar 7.334 milljónir. Tapið var 140 milljónum meira en áætlað var.
Á hverju ári hafa tekjurnar verið oftaldar og tapið margfalt meira en áætlanir sögðu.
Árið 2014 slær þó öll met því nú er gert ráð fyrir að tekjur muni aukast um 200%.
Aðeins á örfáum árum hafa skuldirnar aukist um rúmlega 300%.
Segi ekki meir, en þetta er kennsludæmi um slæma meðferð fjármuna og lélega áætlunargerð sem að sjálfsögðu er allt mér að kenna eða einhverjum öðrum úr minnihluta.
Fjölgun starfa í Reykjanesbæ byggir á heilbrigðu starfsumhverfi, minni og meðalstórum fyrirtækjum, sem byggja tilveru sína á heilbrigðri áætlun og varfærni í fjármálum.
Þannig náum við árangri.
Friðjón Einarsson