Reykjaneshöfn loksins rekstrarhæf
Í lok síðasta árs samþykkti stjórn Reykjaneshafnar framtíðarsýn sína til ársins 2030. Ég hef setið í stjórn hafnarinnar frá árinu 2009 og gegnt ýmsum hlutverkum, bæði í minnihluta og meirihluta og nú síðast sem formaður.
Ég hef á þessum árum tekið þátt í þremur framtíðarsýnum og tveimur fjárhagslegum endurskipulagningum. Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum að sitja í stjórn skuldugasta hafnasjóðs Íslands en með samhentu átaki allrar stjórnar, starfsmanna og bæjarstjórnar hefur tekist að gera Reykjaneshöfn rekstrarhæfa og koma skuldunum í viðráðanlegt horf.
Orðspor Reykjaneshafnar hefur lengi verið laskað vegna mikilla skulda sem tengjast að hluta til brostnum draumum í Helguvík. Norðurál hefur formlega lagt árar í bát, Thorsil gat ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart höfninni og þar með féll þeirra samkomulag niður, nýjar fréttir af kísilveri Arion banka segja okkur að þeir rembast enn við að koma því í gang með einhverjum hætti gegn vilja íbúa og allrar bæjarstjórnar en það gagnast engum að dvelja of lengi í fortíðinni.
Reykjaneshöfn til næstu framtíðar
En hvað þá? Eitt af markmiðum stjórnar Reykjaneshafnar er t.a.m. að flytja löndum sjávarfangs frá Keflavíkurhöfn í Njarðvíkurhöfn og þar með hafnarvog og skrifstofur. Keflavíkurhöfn kemur til með að þjóna litlum og meðalstórum skemmtiferðaskipum sem dýpi og stærð hafnarinnar ræður við og til framtíðar eru miklir möguleikar í veitingasölu og ferðaþjónustu á því svæði. Höfnin er staðsett í hjarta miðbæjarins, rétt neðan við Hafnargötu og margir möguleikar því í göngufæri.
Á sama tíma sjáum við fyrir okkur að styrkja sjávarútveginn á svæðinu í kringum Njarðvíkurhöfn. Þar eru fyrir stöndug og góð fyrirtæki í sjávarútvegi sem sinna spennandi nýsköpun í greininni en einnig mun skipaþjónusta skipa þar stóran sess. Unnið er að rammaskipulagi sem gengur út á stækkun Njarðvíkurhafnar og skipasmíðastöðvar Njarðvíkur auk þess sem stefnt er að þróun skipaþjónustuklasa á svæðinu sem á eftir að hafa jákvæða áhrif á bæinn allan.
Framtíð Helguvíkur liggur fyrst og fremst í vöruflutningum. Fáar hafnir í heiminum eru jafn haganlega staðsettar steinsnar frá alþjóðaflugvelli og því eru miklir möguleikar til framtíðar í vöruflutningum.
Ferðaþjónustumöguleikar í bæði Grófinni og Höfnum eru miklir og verður það skoðað áfram hvað hægt er að gera til að efla ferðaþjónustu á þeim svæðum.
Framtíðin er býsna spennandi hjá Reykjaneshöfn, rétt eins og hjá Reykjanesbæ öllum. Það er margt gott í vændum og mikilvægt að stjórnað sé áfram af yfirvegun og festu.
Hjörtur M Guðbjartsson,
formaður stjórnar Reykjaneshafnar.