Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reykjanesbrautin og þversagnir samgönguráðherra
Föstudagur 6. mars 2020 kl. 15:25

Reykjanesbrautin og þversagnir samgönguráðherra

Á opnum fundi í Reykjanesbæ fyrir skömmu var samgönguráðherra spurður að því hvort hann gæti ekki flýtt framkvæmdum við að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar. Svaraði ráðherra á þann veg að hann ætlaði að tala fyrir því að Reykjanesbrautin verði samþykkt í fyrsta hluta samgönguáætlunar sem gildir á árunum 2020–2024, eða næstu fimm árin. Þetta eru athyglisverð ummæli ráðherra ekki síst í ljósi þess að þau eru á skjön við það sem hann hefur boðað á Alþingi í samgönguáætlun.

Hinn 4. desember 2019 mælti samgönguráðherra fyrir samgönguáætlun. Orðrétt í framsöguræðunni á Alþingi sagði ráðherra að Reykjanesbrautin verði fullkláruð á fyrstu tveimur tímabilum samgönguáætlunar, eða árið 2029. Hér fyrir neðan má sjá það svart á hvítu að samkvæmt samgönguáætlun er tvöföldun Reykjanesbrautar frá Lónakoti í Hvassahrauni að Krýsuvíkurgatnamótum í Hafnarfirði ekki á dagskrá næstu fimm árin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samgönguáætlun til næstu fimm ára – Reykjanesbraut 150 milljónir (Hringtorg við Álhellu).

Samgönguráðherra undirritaði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins 26. september síðastliðinn. Sáttmálinn hefur enn ekki verið samþykktur á Alþingi. Í sáttmálanum kemur fram að  ljúka eigi tvöföldun Reykjanesbrautar frá gatnamótum Krýsuvíkurvegar að Kaldárselsvegi árið 2020. Þessi framkvæmd stendur yfir og var ákvörðun um hana tekin í eldri samgönguáætlun.

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins – Reykjanesbraut – Tvöföldun lokið í Hafnarfirði.

Af þessu má sjá að ráðherra talaði á fundinum í Reykjanesbæ þvert gegn eigin stefnu í málefnum Reykjanesbrautarinnar. Ekkert fjármagn er því miður ætlað í að ljúka tvöföldun brautarinnar næstu fimm árin. Þvert á móti er áætlað að tvöfölduninni ljúki árið 2029.                                                            Samgönguráðherra segir eitt í dag og annað á morgun. Ríkisstjórnarflokkarnir hafast ekki að í málinu.                                                                  

Miðflokkurinn mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir því að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar sem fyrst og hefur bent á raunhæfar leiðir til fjármögnunar.

Birgir Þórarinsson.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins.