Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Reykjanesbær varð af milljörðum - sá gjörningur skal leiðréttur
Jóhann Friðrik og Silja Dögg.
Föstudagur 20. október 2017 kl. 05:00

Reykjanesbær varð af milljörðum - sá gjörningur skal leiðréttur

Við brotthvarf varnarliðsins tók þróunarfélagið Kadeco við um 2.000 eignum (1) á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Þáverandi yfirvöld ákváðu að ekki væri forsvaranlegt á þeim tíma að greidd væru opinber gjöld af eignunum s.s. fasteignagjöld þar sem eignirnar voru fæstar í notkun. Færa má veik rök fyrir því að þetta fyrirkomulag hafi verið viðhaft en umhugsunarvert í ljósi stöðunnar á svæðinu á þeim tíma. Misjafnlega gekk að koma svæðinu aftur í notkun en Kadeco hefur nú lokið við sölu 94% eignanna. Ljóst þykir að kostnaður Reykjanesbæjar við að yfirtaka Ásbrúarsvæðið er langt umfram þær tekjur sem sveitarfélagið hefur haft af svæðinu (2), svo ekki sé minnst á þann gríðarlega fjárhagslega skaða sem lokun varnarliðsstöðvarinnar hafði í för með sér fyrir Suðurnesin (3). Því mun Framsóknarflokkurinn beita sér strax fyrir leiðréttingu á hluta þeirra gjalda sem um ræðir og í kjölfarið skoða hvernig styrkja megi stoðir svæðisins í heild.

Varlega áætlað hefur bæjarfélagið orðið af um 100-220 milljónum á ári í formi gjalda, undafarin tíu ár, og þann halla þarf að leiðrétta strax. Reykjanesbær þarf nauðsynlega á þessum tekjum að halda til þess að efla grunnþjónustu s.s. skóla, leikskóla í gatnagerð (4). Oft er þörf, en nú er nauðsyn. Þá spyrja menn, er forsvaranlegt að ríkið aðstoði bæjarfélagið á þennan hátt? Stutta svarið er JÁ. Niðurfelling á nær öllum gjöldum af eignum á meðan þjónusta er lögbundin er ósanngjörn í eðli sínu. Aðgerðir eru því bæði sjálfsagðar og nauðsynlegar í þessu tilviki til þess að ríkið geti sinnt hlutverki sínu og brugðist við þegar á bjátar. Tökum dæmi. Ríkisstyrkir til framkvæmda er tengjast Bakka á Húsavík nema rúmlega einum og hálfum milljarði króna en á meðan eru tekjur ríkissjóðs af sölu eignanna á vallarsvæðinu tíu sinnum hærri upphæð og hreinn hagnaður 10 milljarðar króna. Ekkert af því fé hefur runnið til svæðisins þrátt fyrir þá stöðu sem uppi er og hefur verið öllum ljós um langt skeið. Reykjanesbær, sem er skuldugasta sveitarfélag landsins mun skulda 37 milljarða króna í árslok 2017 nái samningar við kröfuhafa fram að ganga (5). Niðurskurður til þjónustu hefur verið mikill undanfarin ár og útsvar í botni (6) svo hægt sé að halda grunnþjónustu sveitarfélagsins gangandi. Raunar hefur staða Reykjanesbæjar verið svo slæm að ástæða þótti til þess að gera sérstaklega grein fyrir stöðunni í skýrslu innanríkisráðuneytisins um fjármál sveitarfélaga. Staðan hefur gert það að verkum að framkvæmdir sveitarfélagsins hafa sjaldnast verið minni á meðan þörfin á undanförnum árum, sökum mestu íbúafjölgunar á landinu, hefur aldrei verið meiri (7).

Public deli
Public deli

Taldi aðstoð óþarfa
Ofan á slæma stöðu til langs tíma kemur svo grafalvarleg staða Kísilversins (8) sem er án efa fordæmalaus í sögu stóriðju á Íslandi, ef ekki í allri Evrópu. Mögulegur tekjumissir sveitarfélagsins af því ævintýri er því verulegur. Í ljósi þessarar stöðu lagði Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins fram fyrirspurn til fjármálaráðherra þar sem hún spyr hvort hann ætli sér að leggja samfélaginu á Suðurnesjum lið í ljósi stöðunnar (9). Ekki stóð á svari frá ráðherra sem einfaldlega taldi ekki þörf á því. Nokkrum mánuðum seinna var sami ráðherra mættur, öllum að óvörum, (10) þar sem hann færði Bláskógarbyggð eignir ríksins sem áður voru nýttar undir starfsemi háskóla (10). Ekki þótti ráðherra slíkur samningur neitt tiltökumál enda stórt högg að missa háskólann á Laugarvatni (11). Í því máli var ég fyllilega sammála ráðherra og vonast til þess að samningurinn verði heimamönnum til heilla.

En nú er mælirinn fullur. Nú er kominn tími til þess að Suðurnesjamenn standi saman og krefjist sanngirni af hálfu ríksins. Það er til skammar að fjárframlög til heilbrigðismála á Suðurnesjum séu lægst per íbúa, (12) það er til skammar að fjárframlög til Fjölbrautaskóla Suðurnesja séu mun lægri en til sambærilegra skóla (13) og það er til skammar að ríkið ætli sér að hagnast á þeim óförum sem brotthvarf hersins hafði á sínum tíma þar sem 600 störf töpuðust. Framsókn ætlar að sjá til þess að gjörningurinn verði leiðréttur. Við þetta verður ekki unað. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Jóhann Friðrik Friðriksson,
skipar fjórða sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins