Aðsent

Reykjanesbær þolir ekki fleiri íþyngjandi verkefni
Fimmtudagur 27. júlí 2017 kl. 10:42

Reykjanesbær þolir ekki fleiri íþyngjandi verkefni

Allnokkur reiði einkennir umræðu á netmiðlum þessa dagana um flóttafólk og hælisleitendur sem staddir eru í Reykjanesbæ. Ég legg áherslu á nauðsyn þess að við ræðum þessi mál á þann hátt að fólk verði upplýstara um málefni flóttafólks og hælisleitenda.

Við hér í Reykjanesbæ höfum og viljum taka vel á móti þessum hópum fólks en erum í erfiðri stöðu. Við höfum tekið á móti kvótaflóttafólki og hælisleitendum og gert það með prýði. Eins og staða bæjarfélagsins er í dag þá er það hins vegar orðið ansi erfitt. Skuldastaða Reykjanesbæjar er ekki góð þegar við lítum á ársskýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þar sem tekið er fyrir tímabilið frá október 2015 til september 2016. Þessir fjármálaerfiðleikar lita alla starfsemi Reykjanesbæjar, þar með talda félagsþjónustuna. Heilsugæslan okkar er sú sem fékk næst lægt fjármagn frá ríkinu fyrir síðasta ár, eða tæpa 2,5 milljarða samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær fékk enga fjármuni frá ríkinu eftir sölu eigna á Ásbrú. Reykjanesbær hefur skuldbundið sig til ákveðinna útgjalda en tekjur bæjarins renna ekki til uppbyggingar innviða nema að litlu leiti og aðeins til að veita lágmarks þjónustu.

Bæjarfélagið á í vök að verjast og getur varla veitt lögbundna þjónustu. Þegar félagsleg vandamál eru í stórum stíl flutt yfir í okkar bæjarfélag og aðrir staðir víkja sér undan ábyrgð er það íþyngjandi fyrir Reykjanesbæ og bæjarbúa. Reykjanesbær er með skuldsettustu bæjarfélögum á landinu en áfram er aukinni ábyrgð á hælisleitendum og flóttafólki ýtt yfir á okkur. Við viljum gjarnan leggja okkar af mörkum en við getum þetta ekki ein.

Hælisleitendur eru líka í viðkvæmri stöðu. Þeim er veitt þjónusta frá ríkinu en þeir þurfa að sækja hana til Reykjavíkur, jafnvel þó þeir búi hér. Um 40 hælisleitendur, flestir frá Albaníu, Georgíu og Írak, hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi af ýmsum ástæðum. Útlendingastofnun hefur gefið út að þar sé verið að hraða vinnslu forgangsmála og vonandi gengur það upp. Það er hins vegar ólíðandi að hælisleitendur þurfi hér að bíða upp á von og óvon í lengri tíma með lágmarks aðstoð.

Öll umræða um málefni Reykjanesbæjar er holl fyrir okkur bæjarbúa eins lengi og við erum málefnaleg, án fordóma og upphrópana. Við eigum að láta rödd okkar heyrast og taka þátt í okkar nærsamfélagi, tala um hlutina og leita lausna á þeim vanda sem bæjarfélagið okkar er statt í. Sá vandi hverfur ekki með einu pennastriki. Stöndum saman og vinnum að því öll að gera okkar samfélag öflugt. Saman gerum við kraftaverk.

Þórólfur Júlían Dagsson,
stjórnarmaður Pírata á Suðurnesjum.