Aðsent

Reykjanesbær snýr vörn í sókn varðandi heilsu íbúa
Laugardagur 20. maí 2017 kl. 06:00

Reykjanesbær snýr vörn í sókn varðandi heilsu íbúa

Reykjanesbær er í mikilli sókn og var íbúafjölgun hér í fyrra sú mesta á landinu. Reykjanesbær er meðal annars þekktur fyrir mikil afrek á sviði íþrótta og menningar en skólar í sveitarfélaginu hafa verið sigursælir í Skólahreysti undanfarin ár og aðstaða til íþróttaiðkunar verið með því besta sem gerist á landinu. Þó er það svo að heilsufarsleg útkoma íbúa á Suðurnesjum kom mis vel út úr samanburðartölum lýðheilsuvísa Embættis landlæknis. Í kjölfarið ákvað Reykjanesbær að gerast aðili að verkefninu „Heilsueflandi samfélag“ og efla lýðheilsu bæjarbúa með ýmsum verkefnum og aðgerðum á næstu árum.

Samanburður á milli landshluta sýnir að virkur ferðamáti, s.s. að ganga í vinnu eða skóla, er langt undir landsmeðaltali á Suðurnesjum. Að auka hreyfingu er því verkefni sem samráðshópur um heilsueflandi samfélag setti á oddinn í byrjun árs með þátttöku í Lífshlaupi ÍSÍ en þátttaka í Reykjanesbæ var framar vonum. Virk hreyfing er það mikilvægasta sem fólk getur gert fyrir heilsuna. Hreyfing þarf ekki að kosta mikið, þarf ekki að vera flókin eða taka mjög mikinn tíma til þess að vera áhrifarík. Því hefur samráðshópur um heilsueflandi samfélag ákveðið að taka þátt í hreyfiviku UMFÍ sem hefst 29. maí. Hreyfivikunni verður þjófstartað 24. maí kl.17.00 í Skúðgarðinum í Reykjanesbæ þar sem FFGÍR ( regnhlífarsamtök foreldrafélaga grunnskólanna í Reykjanesbæ) mun bjóða öllum bæjarbúum, jafnt börnum sem fullorðnum, í jóga.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær mun einnig taka þátt í sundkeppni á milli sveitarfélaga þar sem dregið verður um árskort í sund meðal þeirra sem skrá sig til leiks. Allir bæjarbúar verða svo hvattir til þess að fara út að ganga í Hreyfivikunni og eiga þá möguleika á að vinna sér inn vegleg hreyfivikuverðlaun. Ýmsir viðburðir tengjast Hreyfivikunni í Reykjanesbæ og verður hægt að nálgast upplýsingar um þá á heimasíðu verkefnisins og á hreyfivika.is. Ég skora á alla bæjarbúa að virkja hreyfiorkuna og mæta með börnin í jóga í Skrúðgarðinum kl. 17.00 á miðvikudaginn kemur.

Jóhann Fr. Friðriksson,
verkefnastjóri heilsueflandi samfélags í Reykjanesbæ