Aðsent

Reykjanesbær og fjórða iðnbyltingin
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 23:12

Reykjanesbær og fjórða iðnbyltingin

Reykjanesbær, bærinn á jarðvarmanesinu minnir okkur á jarðvarmann, þá dýrmætu og gjöfulu auðlind sem er innan bæjarmarka. Það er einnig önnur dýrmæt auðlind í hrauninu sem gnógt er af og sem bærinn okkar á greiðan aðgang að sem er hreint og kalt grunnvatn oftast nefnt kalt vatn. Auðlindirnar hafa verið virkjaðar af varfærni og með sjálfbærni að leiðarljósi sem aftur hefur stuðlað að aukinni sjálfbærni Reykjanesbæjar. Bæjarbúar búa við og munu áfram búa við auðlindaöryggi þ.e.a.s. rafmagn er tryggt og af góðum gæðum, heita vatnið er tryggt af drykkjarvatnsgæðum og það sama er að segja um kalda vatnið. Gerum við bæjarbúar okkur grein fyrir hversu stóran þátt þessar auðlindir og öruggt aðgengi að þeim eiga í vellíðan okkar, þökkum við fyrir þær?  Það er ekki úr vegi að leggja til að haldinn verði árlega sérstakur umhverfis- og jarðlindadagur í skólum bæjarins og í bæjarfélaginu. Á þessum degi væri sjónum okkar beint að umhverfi og jarðlindum Reykjanesbæjar, um þær frætt og fjallað og okkur íbúum kennt hvernig unnt er að nýta jörð og jarðlindir frekar með sjálfbærum hætti um langa framtíð og okkur kennt að meta þær að verðleikum.
 
Í Reykjanesbæ er kominn kjarni öflugra innviða sem einsýnt er að eigi að efla svo bærinn vaxi og dafni vel um langa framtíð. Flugvöllurinn og hafnirnar gefa Reykjanesbæ einstaka sérstöðu, bæjar mitt á milli Evrópu og Ameríku. Fjölbreytt atvinnulíf, öflugir góðir skólar, fjölbreytt menningarlíf og nokkuð hátt tæknistig ber þess vott að mannauður er mikill í Reykjanesbæ. Degi er ljósar að Reykjanesbær hefur góðan grunn og allt til að bera til að taka með öflugum hætti þátt í fjórðu iðnbyltingunni en með henni er átt við tækniframfarir sem lúta að gervigreind, róbótatækni, sjálfkeyrandi bílum, Interneti hlutanna (Internet of Things, IoT), sjálfvirknivæðingu, umhverfisvernd, fæðuöryggi og fleiru sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.
 
Þróun nýrrar tækni og innleiðing hennar er alla jafna sprottin úr frjóum jarðvegi einstaklinga og nýsköpunarfyrirtækja þeirra. Þróun og innleiðing nýrrar tækni er m.a. háð innviðum bæjarfélaga og laga og reglugerða sem gilda á hverjum tíma. Reykjanesbær verður að huga vel að þessum þáttum og móta til langs tíma öfluga stefnu um styrkingu og breytta innviði og þróun reglna og verklags sem styður og hvetur einstaklinga og fyrirtæki til nýsköpunar og þróunar og gefur þeim ákveðið frelsi til athafna.
 
Gangi þetta eftir eykst frumkvæði, sjálfstæði og kraftur Reykjanesbæjar til að taka fullan þátt í fyrirsjáanlegum samfélagsbreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar. Hún er hafin með fullum þunga hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar á því ekki annan kost en að undirbúa bæjarfélagið markvisst undir samfélagsbreytingar sem fyrirsjáanlegar eru í næstu framtíð. Reykjanesbær verður að taka þessi mál föstum tökum nú að öðrum kosti  eigum við á hættu að missa af fremsta vagni lestarinnar. Grundvallargildi, stefna Sjálfstæðisflokksins og það öfluga fólk sem skipar listann í Reykjanesbæ til að framfylgja henni er líklegust til þess að leggja grunninn að velsæld fyrir framtíðina.
 
Albert Albertsson
Skipar 20. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024