Reykjanesbær með meirihluta í gömlu góðu Hitaveitu Suðurnesja
Á næstu árum má gera ráð fyrir að miklar fjárfestingar og fjármagn verði lagt í vinnslu virkjana og tengdri starfsemi. Öllum er ljóst að mikil verðmæti felast í hreinni og öflugri orku okkar hér á landi. Alþingi hefur nýlega sett lög þar sem gert er ráð fyrir að heimilt sé að skipta upp slíkri starfsemi en skilyrði er þó að dreifikerfi sé ávallt í meirihlutaeigu opinberra aðila. Á þennan hátt eykst verðmæti auðlindarinnar gífurlega og tækifæri opnast sem áður voru ekki til staðar. Þegar horft er til þeirra miklu verkefna sem framundan eru hjá HS Orku er ljóst að mikil þörf er á auknu hlutfé inn í félagið. Á þennan hátt er hægt að tryggja að slíkt fjármagn komi til án þess að þurfi að leita í skattpeninga okkar suðurnesjamanna. Slíkt er öllum til hagsbóta.
Á þeim tíma sem við lifum í dag er ekkert sjálfgefið í viðskiptum. Enn frekari krafa er gerð á opinbera aðila að huga vel að skattfé borgaranna og skila hverri krónu á ábyrgan hátt til samfélagsins. Það er skynsamlegt og ekki síður mjög ábyrg afstaða að vilja losa bæjarsjóð við þá áhættu sem í því felst að binda mikið af opinberu fé í stórar fjárfestingar HS Orku án vissu um hvort og hvernig sú binding skilar arði til sveitarfélagsins.
Það má ekki gleyma að hlutverk og skilgreind markmið eru þau sömu og áður. Þjónustan er skilgreind á sama hátt en veitustarfsemi fyrirtækisins er tekin út og bundin sérleyfishöfum. Verðmæti þessa þáttar er erfitt að áætla en ljóst má vera að slík sérleyfisstarfsemi mun skila bæjarbúum góðum arði á komandi framtíð ásamt því að tryggja okkur hámarksþjónustu, nú sem áður fyrr.
Hitaveita Suðurnesja er af mörgum talið gullegg okkar suðurnesjamanna. Því er ég sammála enda liggur á bak við fyrirtækið mikil saga og gífurleg uppbygging okkar heimamanna. Þess vegna fagna ég þessum samningi Reykjanesbæjar. Hann er í hag allra sem að honum standa, sérleyfishöfum, bæjarsjóð og okkur bæjarbúum. Breytingar skila framförum og í framtíðinni liggja ótal tækifæri til að skila bænum arði í formi góðrar þjónustu og ábyrgrar stefnu í umsýslu skattfpeninga okkar.
Bestu kveðjur,
Björgvin Árnason