Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reykjanesbær með augum „útlendings“
Sunnudagur 12. september 2010 kl. 13:06

Reykjanesbær með augum „útlendings“

Eftir að hafa verið við nám í Horsens í Danmörku síðan sumarið 2008 og eingöngu komið heim yfir jólahátíðarnar að þá þurfti ég nauðsynlega að fylla á andlegu batteríin og sjá eitthvað annað en akra og skóga og misbrún múrsteinshús með koparþökum. Það er líka erfitt að vera án barnsins síns í útlöndum og var hann mikið knúsaður í þessari heimsókn til Íslands.

Einnig eru það mannréttindi að sjá ár þar sem vatnið í raun og veru rennur. Í Danmörku eru árnar í sjálfu sér bara mjög mjó stöðuvötn þar sem vatnið hreyfist jafn hratt og ríkisstjórnin í málefnum Reyknesinga, semsagt ekkert. En tilgangur þessarar greinar er að segja aðeins frá minni upplifun af bænum í sumarbúningi eftir tveggja ára hlé á þeirri sýn. Það sem kom mér fyrst skemmtilega á óvart var að sjá að það er ekki minna af trjám í görðum bæjarins heldur en í þeim dönsku bæjum sem ég hef komið í . Þeir vissulega rústa okkur í hæð trjánna og ummáli stofnsins enda er ekkert til sem heitir veður hér í Danmörku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

1 cm snjókoma er bókstaflega kölluð snjóstormur (held reyndar að það orð, snestorm, sé bara þeirra orð yfir almenna snjókomu en það er nett hjákátlegt að hafa orðið stormur inni í því) og rok hjá þeim er létt gola hérna. Í þau fáu skipti sem blæs af einhverri alvöru (íslenskum stinningskalda) að þá fyllast Danir skelfingu en Íslendingar af heimþrá, auk þess að þá fjúka þök og brýr loka. Þá kannski lokum við Íslendingar stóra glugganum en þeir loka skólum. Þetta almennt blíða veðurfar, ásamt frjóum jarðvegi gerir það verkum að gróður sprettur vel og hratt hérna.

Til að bæta upp fyrir þessi skelfilegu hús, með nokkrum undantekningum þó, að þá mega þessir hjólreiðabrjáluðuspægipylsuámaltbrauði(ekki rúgbrauð þó þeir haldi að þetta séu rúgbrauð) eiga það að garðarnir þeirra eru hver öðrum fegurri. Þetta veit ég persónulega mjög vel þar sem ég starfa á laugardögum sem gríðarlega skemmtilegur bréfberi og hef þar af leiðandi komið upp að í um kringum öðru hverju húsi hérna í Horsens. En nóg um Hrossanesið í bili.

Það sem kom mér mjög skemmtilega á óvart við að rúnta um bæinn var að ég hef aldrei, og þá meina ég aldrei, séð hann í almennt jafn miklum blóma og núna. Einnig tók ég eftir því hvað margir eru búnir að lappa upp á húsin sín og mála og skipta um þök og slíkt. Lengi lifi endurgreiddur virðisaukaskattur. Þetta á bæði við um einbýlishús og einnig opin svæði á vegum bæjarins. Það eru vissulega ennþá staðir sem úrbóta er þörf en mikil breyting hefur átt sér stað. Sem dæmi má nefna svæðið í kringum KK húsið og allt í kringum Stapann og Nesvelli. Einnig hefur höfnin tekið stakkaskiptum í Keflavík með nýja steypta keyrsluhlutanum. Þar sem úrbóta er þörf finnst mér mest vera á Vatnsnesinu, mikið af ljótum húsum og svæðum sem eru ekki alveg til fyrirmyndar. Önnur svæði hafa vissulega einhverja annmarka en mér fannst þetta vera mest einkennandi fyrir þennan stað. Einnig skil ég ekki hví grunnurinn af fiskvinnslunni sem brann við hliðina á gömlu sundlauginni var ekki líka fjarlægður. Hálfnað verk þá óklárað er, í þessu tilfelli. Rífa hann burt, setja smá mold og tyrfa, þangað til annað verður byggt. Er mikið sár á svæðinu finnst mér.

Það sem kannski er hryggilegast við núverandi efnahagsástand og sást vel við að rúnta Hafnargötuna var að sjá öll þessu auðu verslunarpláss, en á sama tíma var reyndar komið eitthvað af nýjum fyrirtækjum og er það lofsvert í núverandi tíð. Það versta við Hafnargötuna er reyndar sjálf gatan. Núna er kaflinn við gamla póst og símahúsið orðin ansi slappur og þá sting ég upp á því að kaflinn frá og með Paddys og upp að gatnamótunum við Úra og skartgripaverslun Georgs Hannah verði steyptur og til að lífga upp á hana verði settir litir í hana, kannski þar sem hjólförin eiga að vera. Þetta hefur maður séð í innkeyrslum og líka reyndar á götum, allavega erlendis. Þetta myndi viðhalda útlitsgildi götunnar ásamt því að vera nánast viðhaldslaust í mörg ár. Sést best á steyptu götunum í Njarðvík að ekki hefur verið litið á þær, að mér skilst, í tugi ára.

Göngustígakerfið í bæjarfélaginu er algerlega til fyrirmyndar og sama gildir um mest alla íþróttaaðstöðu sem er innan bæjarmarkana. Mjög flott þessi þrautabraut fyrir neðan sundlaugina. Einnig er allt annað að sjá gamla fótboltavöllinn í nýjum fötum. Ég var nú alltaf aðeins á móti því að halda honum þarna fyrst að verið var að byggja upp þessa fínu aðstöðu í Njarðvík en eftir að hafa séð hann í ágúst að þá varð maður nú sáttari við hann.

Það sem gæti kannski orðið að vandamáli er hvað á að gera ef ásókn í FS verður enn meiri en núverandi húsakostur gerir ráð fyrir. Það er vissulega hægt að fylla uppí hlutann á milli skólans og íþróttahússins því það er tæplega hægt að klippa af bílastæðunum fyrir aftan skólann. Nema þá að yfirvöld kaupi aðventistahúsið og lóðina og setji bílastæði þar, allavega á þessum skrítna auða bletti sem er nú ansi stór í kringum það og er engum til gagns.

En læt þessi nokkur orð duga að sinni og vona að fólk reyni að líta björtum augum til framtíðarinnar í Reykjanesbæ. Óskum þess að allir leggist á eitt, bæjaryfirvöld og ríkisstjórn. Oft var þörf en nú er nauðsyn.


Sigurbjörn Arnar Jónsson.

Nemi í Value Chain Management í Horsens Danmörku og verðandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar.