Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Reykjanesbær leggur rokkskóna á bókahilluna
Föstudagur 8. mars 2024 kl. 13:14

Reykjanesbær leggur rokkskóna á bókahilluna

Þá er það ákveðið. Þeir sem ráða ríkjum í Reykjanesbæ ætla að láta rokkið víkja fyrir bókunum. Við getum greinilega ekki bæði lesið og verið í rokkinu. Mér hefur að vísu tekist það í rúm 50 ár og verið ötull notandi bókasafnsins, tónlistarskólans og síðan Hljómahallar í öllum sínum myndum. Fyrir rúmu ári tjáði ég mig opinberlega um hina ýmsu kosti sem sambúð tónlistarskólans, safnsins og Stapans í Hljómahöll hefur og fann ýmislegt að þeirri hugmynd að bókasafn myndi taka yfir partýið.

En meirihlutinn var ákveðinn í að kanna kosti þess að flytja bókasafnið inn í Hljómahöllina og stofnaður var starfshópur um verkefnið. Fljótlega kom í ljós að þeir sem vildu skoða aðra möguleika eða fundu eitthvað að hugmyndinni áttu ekkert erindi inn í þennan starfshóp og ekki skyldi hlustað á úrtöluraddir. Ég bauð fram mína krafta í þessari valkostagreiningu þar sem ég hef sérþekkingu í málaflokknum og vinn að þarfagreiningu á húsakosti fyrir nokkur helstu opinberu söfnin. Það var ekki talið æskilegt að ég kæmi nálægt þessu vegna þess að ég væri á móti hugmyndinni. Meirihlutinn ætlaði að keyra þetta í gegn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem er athyglisvert í þessu er að ráðinn var „sérfræðingur að sunnan“ til að vinna greinargerð á þremur valkostum, þ.e. óbreytt ástand, flutning bókasafns í Hljómahöll og síðan nýbygging. Út úr þeirri greiningu var engin klár niðurstaða önnur en að ný bygging kæmi best út en væri dýrasti valkostur og tæki tíma. Hinir tveir valkostirnir voru heldur ekkert sérstakir og fundu allir tengdir aðilar ýmislegt að hugmyndinni. Lagði sérfræðingurinn til að áður en lengra væri haldið væri rétt að ræða við bæjarbúa um þessar hugmyndir. Það smellpassar líka við það upplegg sem kynnt var fyrir kosningar um íbúalýðræði og leita skyldi til bæjarbúa um mikilvæg málefni. En bara ekki þegar meirihlutinn vill gera það sem honum sýnist. Ekki var þetta borið undir nokkurn bæjarbúa og alls ekki þá sem hugsanlega gætu verið mótfallnir.

Í kjölfar greinargerðar var lítið unnið í starfshópnum en arkitektar kallaðir til að teikna og reikna hvernig hægt væri að troða bókunum upp í rassgatið á rokkinu. Nú liggur fyrir greinargerð sem forseti bæjarstjórnar hefur unnið og lagt fram og fengið samþykkta í bæjarráði. Í þeirri greinargerð er sem mest lagt upp úr því að gera lítið úr efasemdarröddum um flutninginn og mörgum orðum eytt í að dásama hugmyndina. Þarna er málið skoðað með fullkominni rörsýni. Engir aðrir möguleikar eru skoðaðir í stöðunni.

Hérna eru nokkrar hugmyndir:

  • Bókasafnið fái inni í Íþróttaakademíunni. Húsið er með takmarkaða nýtingu og býður fimleikunum heldur ekki upp á kjöraðstæður. Rými er nægt fyrir bókasafnið. Fyrirlestrasalur er frábær og aðrir salir eru bjartir og rúmgóðir.
  • Bókasafnið verði fléttað inn í Myllubakkaskóla þar sem framkvæmdir standa nú yfir. Bókasafnið væri þá aftur komið á upphafsreit en þegar ég var að alast upp fór ég upp á efri hæðina í íþróttahúsi skólans til að ná í bækur.
  • Byggt verði menningarhús á HF reitnum svokallaða. Svarta pakkhúsið má víkja og byggja má upp menningarstarfsemi á þessum reit í kringum Fischershúsið. Þarna gæti verið bókasafn og aðstaða fyrir aðra menningarhópa ásamt kaffihúsi og miklu lífi.

Í tíð núverandi meirihluta hefur smátt og smátt verið dregið úr menningarlífinu í bænum og sem dæmi þá er verið að setja svipaða upphæð í menningarstyrki til einstaklinga og félaga og fyrir 10 árum. Á sama tíma hefur íbúum hér fjölgað einna mest á Íslandi og hefði því verið full þörf á að efla menningarstarfið. Það verður líka að vera gaman.

Eflaust eru fleiri möguleikar í stöðunni en þeir voru bara ekkert skoðaðir. Rörsýnin gekk bara út að meta kostina við að setja bókasafnið í Hljómahöllina. Ekkert annað! Þegar fleiri möguleikar eru ekki settir á borðið þá er náttúrulega auðvelt að velja.

En niðurstaðan er ekkert að vekja mikla kátínu hjá þeim sem málið snertir. Bókasafnið er ekki að fá húsnæði sem safnstjóri óskar eftir, þrengt er að tónlistarskólanum, möguleikar til viðburðahalds í Hljómahöll verða takmarkaðri og Rokksafnið verður lagt af.

Hvernig í ósköpunum fær meirihlutinn út að þetta sé að skila sér í auknu menningarstarfi?

Baldur Þ. Guðmundsson,
sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.