Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 21. maí 2002 kl. 13:31

Reykjanesbær: Hafnargata - Ægisgata

Ljóst er að framtíðarsýn um uppbyggingu og fegrun Hafnargötu og endanleg gerð Ægisgötu verður að veruleika á næsta kjörtímabili. Við Framsóknarmenn höfum þá sýn að hlutir geti þróast mjög hratt á næstu mánuðum þannig að betra er að menn bretti upp ermar og geri áætlanir um uppbyggingu þessarar gatna mjög fljótlega.International Pipe and Tube

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að samningur HASS við International Pipe and Tube um lóðarsköpun vegna væntanlegrar stálröraverksmiðju í Helguvík, gerir ráð fyrir því að fjarlægja þurfi yfir 500.000 rúmm. af grjóti af væntanlegri lóð. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvílíkt ógurlegt magn þetta er, til samanburðar má nefna að í brimvarnargarðinn við hafnargarðinn í Keflavík fóru 170.000 rúmm.



Á fundi sem boðað var til að frumkvæði MOA með Skipulags- og Tæknideild Reykjanesbæjar ásamt hagsmunaaðilum og áhugafólki um framkvæmdir á Hafnargötunni, kom fram að vegna framkvæmdanna þarf Ægisgata að taka við umferðinni að mestu leyti á meðan framkvæmdum stendur.



Minni sjávarselta ?

Strax að loknum kosningum þarf ný bæjarstjórn ásamt hafnarstjórn að gera áætlun um hvað gera skuli við allt það efni sem fjarlægja þarf úr Helguvík. Í mínum huga liggur það ljóst fyrir: Samkvæmt þeim tillögum sem sýndar voru á umræddum fundi, þarf verulegt magn af grjóti í þá framkvæmd, sjálf Keflavíkin mun breyta verulega um svip á eftir.



Í fljótu bragði sé ég að við myndum þurfa að leita til Siglingastofnunar Íslands um hönnun á brimvarnargarði eða hæfrar verkfræðistofu hér í Reykjanesbæ á verkinu. Ég nefni brimvarnargarð því ég ætla að menn vilji gera þetta þannig að þeir geti verið stoltir af framkvæmdinni í framtíðinni. Gætu ekki allir sætt sig við að losna við sjávarseltuna ? Ég get ekkert sagt til um magntölur í þessu sambandi en segi ca. 300.000 rúmm. Hafnargarðurinn í Njarðvík er barn síns tíma og hefur látið mikið á sjá undanfarin ár, utan við garðinn mætti "lagera" grjóti og hlaða því upp síðar.



Í Innri Njarðvík er mikið landbrot og væri ekki úr vegi að bæta ríkulega úr í þeim málum, nóg verður af grjóti til þess. Hugsanlega gætum við selt Vegagerðinni efni í tvöföldun Reykjanesbrautar.



Þessi upptalning mín á verkefnum er til þess að benda mönnum á möguleika þess að sé þetta gert á sama tíma og farið er í lóðarsköpun fyrir fyrirhugaða stálröraverksmiðju yrði það mikill sparnaður. Þegar búið er að setja grjótið á flutningstæki hvort heldur er bíll eða prammi myndi það spara mikla fjármuni að koma því á þann stað sem það mun verða í framtíðinni.



Að lokum

Ég er búinn að búa í nálægð við sjóinn alla mína tíð, haft glæsilegt útsýni yfir sjóinn, sé skipin koma og fara, sjórinn misúfinn. Hugsanlega á ég eftir að lifa það að þurfa ekki að fara út eftir hvassa NA-átt og þvo gluggana til þess að njóta útsýnisins.



Meðan ég skrifaði þessa grein kom upp í huga mér atómkvæði eftir Kristin Rey (Kristinn í Bókabúðinni)



Vélbátar hoppa og skoppa,

rauðmagi í fjörulóni,

krakkar að leik í sandkassa,

sautjánda júnístöng í Keflavík.



Þorsteinn Árnason

form. hafnarstjórnar

skipar 2. sætið á B-lista Framsóknarflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024