Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag
Föstudagur 7. apríl 2017 kl. 10:35

Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag

- Aðsend grein frá verkefnisstjóra heilsueflandi samfélags í Reykjanesbæ

Undir lok árs 2016 gerði Reykjanesbær samning við Embætti landlæknis um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag (HES). Í kjölfarið gerði bæjarfélagið samning um verkstjórn við Nexis sem er ráðgjafafyrirtæki á sviði heilsueflingar og forvarna. Undirritaður tók við verkstjórn og í kjölfarið skipaði Reykjanesbær samráðshóp verkefnisins sem í sitja ýmsir hagsmunaaðilar í bæjarfélaginu. Samstarfið hefur verið með miklum ágætum en hópurinn hefur m.a. unnið að upplýsingaöflun og kortlagningu á heilsufarslegum áhrifaþáttum sem snerta íbúa bæjarfélagsins. Samstaða var um að leggja megin áherslu á hreyfingu á þessu ári, en markmið verkefnisins er að stuðla að íhlutunum sem líklegar eru til þess að hafa varanleg áhrif á aðgengi og hollustu meðal bæjarbúa.


Áhyggjur af mengun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarin misseri hafa bæjarbúar haft áhyggjur af mengun frá kísilveri Sameinaðs Sílikons í Helguvík og hafa bæjarstjórn og eftirlitsaðilar tekið undir þær áhyggjur og brugðist við. Vegna fyrirspurna til verkefnastjóra er vert að taka eftirfarandi fram. Meginmarkmið heilsueflandi samfélags er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsvenjum, góðri heilsu og vellíðan allra íbúa. Þvert á það sem gefið hefur verið í skyn á samfélagsmiðlum er möguleg mengun þar ekki undanskilin. Fram að þessu hefur ekki þótt ástæða til að óska sérstaklega eftir umræðum um málefnið í samráðshópnum.


Frábær árangur í Lífshlaupinu

Í byrjun febrúar hóf samráðshópur um heilsueflandi samfélag samstarf vegna Lífshlaupsins sem er árleg keppni í hreyfingu á vegum ÍSÍ. Með auglýsingum, fréttatilkynningum og veggspjöldum hvatti bæjarfélagið vinnustaði og einstaklinga sérstaklega til þátttöku í átakinu. Lífshlaupinu var hrundið af stað með upphitunarkeppni í Skólahreysti sem haldin var í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Óhætt er að segja að þátttaka og árangur vinnustaða í Reykjanesbæ hafi verið framar vonum, þó svo lítil umfjöllun á landsvísu um átakið hafi sannarlega valdið vonbrigðum. Í hópi 10 til 29 starfsmanna varð heilsuleikskólinn Háaleiti í 5. sæti, Holtaskóli sigraði Lífshlaupið í flokki 30 til 69 starfsmanna og Njarðvíkurskóli varð í 3. sæti, Háaleitisskóli í 9. sæti og Heiðarskóli í 10. sæti. Akurskóli sigraði í flokki 70 til 149 starfsmanna og Ráðhús Reykjanesbæjar tók 4. sætið. Tvö stór Suðurnesjafyrirtæki komust svo í topp tíu á listanum yfir enn stærri vinnustaði en Bláa lónið náði 8. sætinu í flokki 400 til 799 starfsmanna og ISAVIA 5. sæti í flokki 800 starfsmanna og fleiri.

Samstarf við Embætti landlæknis

Í mars hélt Embætti landlæknis vinnudag í samstarfi við heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ. Vinnudagurinn var haldinn í Stapa þar sem hagsmunaaðilum á Suðurnesjum var boðið til þátttöku. Skemmst er frá því að segja að skráning var framar vonum enda áhugi á heilsueflingu klárlega að aukast á svæðinu. Samráðshópur um heilsueflandi samfélag tók vikan þátt í vinnudeginum en afrakstur hans nýtist til frekari undirbúnings og eflingar heilsu á Suðurnesjum. Eins og áður sagði hefur samráðshópur um heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ fundað reglulega en 7 fundir hafa verið haldnir og hópurinn kallað til sín starfsmenn bæjarfélagsins, fagfólk og aðra hagsmunaaðila til skrafs og ráðagerða. Hafinn er undirbúningur að heimasíðu verkefnisins sem ber nafnið heilsueflandisamfelag.is og ráðgert er að taka virkan þátt í Hreyfiviku UMFÍ sem hefst 29. maí næstkomandi. Heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ er verkefni bæjarbúa. Nú þegar verkefnið er að mótast er enn mikilvægara að kynna það og minna á að hægt er að koma hugmyndum á framfæri í gegnum heimasíðu verkefnsins heilsueflandisamfelag.is.

Jóhann Friðrik Friðriksson, verkefnastjóri heilsueflandi samfélags í Reykjanesbæ.