Reykjanesbær er góður bær
Síðustu 4 árin hér í Reykjanesbæ hafa verið ævintýri líkust. Bærinn hefur vaknað úr dróma og nú iðar allt af lífi og athafnasemi. Hvert sem litið er sjáum við eitthvað nýtt og uppbyggilegt nánast á hverjum degi. Það eru yfir 1000 íbúðir í byggingu í bæjarfélaginu þessa stundina og fólk flykkist í bæinn okkar. Slík uppbygging hefur ekki sést í þessu bæjarfélagi síðan á sjötta áratugnum þegar varnarliðið kom til landsins og fólk flykktist hingað í hópum allstaðar af landinu.
Öll þessi uppbygging þýðir fleiri skóla, leikskóla, íþróttahús, sundlaugar, öldrunarstofnanir og atvinnutækifæri. Öll þessi gríðarlega uppbygging kostar peninga en eins og flestir vita kostar peninga að búa til peninga. Það kostar líka peninga að búa til velferð og umhyggjusamt samfélag. Það er það sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið að gera undanfarin ár undir forustu Árna Sigfússonar bæjarstjóra. Til að fjármagna þennan mikla uppgang hefur þurft að losa fjármuni annarsstaðar í samfélaginu. Það hefur allt verið gert á lýðræðislegan hátt og samþykkt án mótatkvæða í bæjarstjórn. Flótti minnihlutamanna frá samþykktum sínum sýnir aðeins hvern mann það fólk hefur að geyma. Það segir okkur einnig hver slags áfall það yrði fyrir alla uppbyggingu í Reykjanesbæ ef þeir næðu völdum.
Ég skora því á alla íbúa Reykjanesbæjar að flykkja sér á bak við bæjarstjórann okkar Árna Sigfússon á laugardaginn kemur.
Kristján Pálsson f.v. alþingismaður