Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reykjanesbær enn betri bær
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 18:40

Reykjanesbær enn betri bær

Málflutningur eins og Hilmar Hafsteinsson ber á borð fyrir fólk á vefsíðu Víkurfrétta í dag til varnar A-listafólkinu dæmir sig sjálfur. Hilmar virðist ekki hafa áttað sig á því að stjórnmálamenn forðast persónulegar svívirðingar. Honum er því vorkunn og ekki ætlun mín að erfa þessi skrif við hann þegar runnin er af honum vitleysan.

Það sem skín þó í gegnum skrif hans sem eins af helstu stuðningsmönnum A-listans er hvað þetta nýja stjórnmálaafl hefur lítið málefnalegt fram að færa í þessari kosningabaráttu. Þeir finna engan höggstað á embættisfærslum Árna Sigfússonar bæjarstjóra hvorki varðandi sölu eigna sem þeir sjálfir samþykktu en flýja nú undan eða annað og þá verður bara að finna eitthvað nýtt.

Þá er seilst aftar og nú er það Ellert Eiríksson f.v. bæjarstjóri í Keflavík og Reykjanesbæ og undirritaður sem f.v. bæjarstjóri í Njarðvík. Það vill reyndar svo til að við Ellert störfuðum með þeim stjórnmálaöflum sem nú mynda A-listann. Ég tel það ekki mitt hlutverk að svara fyrir Ellert en hans embættisfærslur varðandi rekstur bæjarins hafnar yfir allan vafa. Það var ekki hvað síst fyrir hans tilverknað að sameining sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna tókst eins farsællega og raun ber vitni. Hvað varðar embættisfærslur mínar fyrir bæjarstjórn Njarðvíkur þá er ekkert þar að fela nema síður sé. Sú bæjarstjórn getur státað af mörgu m.a. af því að hafa keypt allt land í Innri-Njarðvík að landamerkjum Voga og Grindavíkur. Án þessa lands hefði bæði verið erfiðara og margfalt dýrara að byggja upp ný hverfi sem nú rísa í Innri-Njarðvík.

Ég vona svo að þegar þessari kosningabaráttu lýkur hafi Hilmar áttað sig á því að kosningar snúast um það að gera góðan bæ betri.

Kristján Pálsson f.v. bæjarstjóri í Njarðvík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024