Reykjanesbær: Búið í haginn fyrir aukinn vöxt
Þriggja ára áætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2005-2007 gerir ráð fyrir því að lagður verði grunnur að auknum vexti bæjarfélagsins, áframhaldandi uppbyggingu og aukinni þjónustu við íbúa. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir skuldalækkun bæjarsjóðs og afborgunum langtímalána um rúmar 400 milljónir kr. Þriggja ára áætlun Reykjanesbæjar verður lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í kvöld.
Á sama tíma styrkir Reykjaneshöfn stoðir atvinnulífs með uppbyggingu hafnar og iðngarða í Helguvík. Þar er um að ræða áætlaða lántöku til framkvæmda fyrir alls 100 millj. kr. á árunum 2005-2007.
Forsendur áætlunarinnar gera ráð fyrir hóflegri en stigvaxandi íbúafjölgun samfara uppbyggingu nýrra hverfa. Gert er ráð fyrir að útsvarstekjur hækki um 11% á tímabilinu en tekjur af fasteignagjöldum hækka um tæp 17% til ársins 2007 vegna fjölgunar íbúða og hækkunar fasteignamats.
Áfram verður unnið að því að uppfylla þau markmið sem sett voru í Framtíðarsýn Reykjanesbæjar 2002-2006 en af einstökum framkvæmdum má nefna:
Uppbyggingu nýs hverfis, Tjarnahverfis í Innri Njarðvík. Nýjan skóla í Tjarnahverfi sem hefur rekstur árið 2005 og undirbúning nýs leikskóla sem hefji rekstur 2006. Þá verður á tímabilinu unnið að undirbúningi og uppbyggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi þjónustukjarna (þjónustumiðstöðvar) aldraðra verði tekinn í notkun haustið 2005 og ný innisundlaug verði tekin í notkun vorið 2006. Áfram verður unnið að eflingu háskólastarfsemi á svæðinu.
Fyrirhugað er að sækja til Vegagerðarinnar um flýtiframkvæmdir vegna umhverfis mislægra gatnamóta í Innri Njarðvík og við nýja Flugvallarveg frá Reykjanesbraut inn á Njarðarbraut. Verði Vegagerðin við þeim óskum munu framkvæmdir verða fjármagnaðar með tímabundnum lántökum, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.