Reykjanesbær - Klondike Íslands?
Tómas Tómasson skrifar
Allt frá því að bandaríski herinn kvaddi okkur eftir 55 ára veru á Miðnesheiði er óhætt að segja að verulega hafi farið að halla undir fæti hér á svæðinu. Suðurnesin voru kannski ekki hálaunasvæði en þó nokkuð var um vel launuð störf á vellinum og því mikið högg fyrir marga einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild sinni við brottför hans. Ekki var hægt að hlaupa í vinnu hjá fiskvinnslu fyrirtækjunum eins og í denn, sökum þess að mestur hluti kvótans í bæjarfélaginu hafði verið seldur á einu bretti norður í land og þær örfáu útgerðir sem eftir stóðu börðust í bökkum þar sem sífellt var verið að skera niður þann litla kvóta sem þær höfðu yfir að ráða.
Það er því óhætt að segja, tveimur árum síðar höfum við orðið fyrir einskonar tæknilegu rothöggi þegar heimskreppan reið yfir. Ísland af öllum löndum heimsins varð verst úti. Til að gera vont enn verra má segja að Reykjanesbær, af öllum bæjarfélögum landsins, hafi farið verst útúr hruninu.
Einn af hornsteinum samfélagsins, Sparisjóðurinn í Keflavík (Spkef) sem til áratuga hafði verið aðal lífæð Suðurnesja, hvort sem það snéri að einstaklingum, litlum eða stærri fyrirtækjum, íþróttafélögum eða menningar- og samfélagslegri uppbyggingu gaf upp öndina þrátt fyrir örvæntarfullar endurlífgunartilraunir Steingríms J Sigfússonar á síðustu metrum þessa mæta fyrirtækis.
Bæjarfélagið eins og bankastofnanir og fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar höfðu fjárfest duglega, þá helst í Helguvík í þeirri von væntanlega að skapa tekjur og vinna bug á atvinnuleysinu sem var að sliga bæjarfélagið og fjölmargar fjölskyldur sem bjuggu við kröpp kjör en áttu sér þá von í brjósti að geta komist í vinnu hjá Norðuráli til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða. Því miður varð sú von að engu og vextir og vaxtavextir af þeim lánum sem tekin voru til að búa til aðstöðu fyrir stóriðju iðnað í Helguvík hanga nú einsog myllusteinn á bæjarfélaginu.
Það er kannski ódýrt að vera með eftir á skýringar, en ljóst er þó að ýmislegt hefði betur mátt fara. Við hefðum átt að stíga varlega til jarðar og flýta okkur hægt þegar ljóst var að staða bæjarfélagsins var ekki til þess fallin að fara út í dýrar framkvæmdir.
Á þriðjudagskvöld í síðustu viku birtist viðtal við Kjartan M. Kjartansson bæjarstjóra Reykjanesbæjar í fréttum RÚV. Þar fór hann yfir vanda bæjarfélagsins og þær miklu skuldir sem hvíla á okkur bæjarbúum auk ofurvaxta. Ekki var á honum að heyra að lausn væri í sjónmáli og staðan bæði þung og erfið og samningaferlið í hálfgerðu frosti. Það skaut því eilítið skökku við þegar ég fletti Morgunblaðinu daginn eftir. Við blasti flennistór forsíðu frétt um marg milljaðra framkvæmd um byggingu gangavers á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar kom fram að árið 2017 yrðu allar íbúðir á svæðinu fullar af fólki, slík væri aðsóknin. Væntanlega ætti þetta að styrkja tekjustofna bæjarfélagsins verulega. Það skildi þó aldrei vera að Reykjanesbær sogaði til sín fólk í massavís einsog bærinn Klondike í Kanada gerði þegar gullæðið geisaði þar fyrir 120 árum síðan.
Meira að segja Ísland, sem Bretar settu á lista yfir hryðjuverkaþjóðir, gat samið um skuldir sínar sem nú eru að fullu greiddar. Því neita ég að trúa því að þeir einstaklingar sem börðu sér á brjóst og lofuðu bæjarbúum að greiða úr óráðsíunni sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði komið okkur í hafi ekki einhverjar hugmyndir eða leiðir til að stoppa í götin sem flæðir í. Það fer reyndar lítið fyrir skrifum bæjarfulltrúa, hvar í flokki sem þeir nú eru um þann mikla vanda sem við blasir og hvað sé til ráða. Það er ekki ásættanlegt að menn brýni ritvopnin korter fyrir kosningar og úði úr blekkbyttunni illa ígrunduðum loforðum og léttvægu hjali í von um að komast í nefndir, ráð og jafnvel stjórnir fyrirtækja sem gefa vel í vasann. Þið fenguð jú kosningu til að koma skikk á þau mál sem voru og eru ennþá í ólestri. Sama gildir um þá Sjálfstæðismenn sem fengu kosningu. Nú þarf að leggjast á árarnar og róa lífróður.
Það virðast bjartir tímar framundan hér innanlands sem og víða annarstaðar í heiminum. Atvinnuleysi á okkar svæði er í sögulegu lágmarki. Ferðamannastraumur til landsins eykst jafnt og þétt og metin falla eitt af öðru þar á bæ. Flugstöðin þenst út í allar áttir einsog skrímsli á sterum og miklar framkvæmdir þar á döfinni næstu misserin. Helguvík er að fyllast af kísilverum sem mér reyndar hugnast ekkert sérstaklega vel. Ein slík verksmiðja er algjörlega nóg. Fjölbreytni ætti að vera í fyrirrúmi þegar kemur að framkvæmdum í Helguvík, Menn virðast vera farnir að framkvæma á fullum krafti á nýjan leik. Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW flugfélagsins telur að Reykjanesbær verði það bæjarfélag sem muni vaxa hraðast hér á landi og tækifærin séu mikil hér á svæðinu. Þurfum við virkilega utanaðkomandi menn til að telja okkur trú um að við séum ekki að fara fram af bjargbrúninni inn í svartnætti eilífðarinnar. Tækifærin eru til staðar. Ekkert endilega í megavatts iðnaði með tilheyrandi jarðraski og mengun. Vonandi ber okkur gæfa til að velja þá kosti sem henta okkur og komandi kynslóðum sem hugsanlega hafa hug á því að búa hér í framtíðinni. Það dapurlega við stjórnmál og maður skynjar æ betur með árunum er hversu mikið skammsýni, þröngsýni og eigin hagsmunahyggja virðast ráða för. Ábyrgðin er nefnilega mikil þegar teknar eru ákvarðanir sem snerta ekki bara okkur hér og nú, heldur líka komandi kynslóðir. Það þarf meira til en vatnsgreitt hár og vel hertan bindishnút. Sú neikvæða umræða sem verið hefur áberandi um málefni Reykjanesbæjar, bæði í fjölmiðlum og manna á milli er bæði þreytandi og niður drepandi til lengdar. Reykjanesbær er nefnilega og verður aldrei neitt annað er fólkið sem þar býr og víst þykir okkur vænt um bæinn okkar.
Tómas Tómasson