Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Reykjanes: Úfið, svipþungt, grettið og grimmúðlegt.
Sunnudagur 29. janúar 2012 kl. 12:15

Reykjanes: Úfið, svipþungt, grettið og grimmúðlegt.

Ysti hluti Reykjanesskagans er einkar áhugaverður jarðfræðilega. Við Reykjanestá gengur úthafshryggurinn langi á land með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda. Slíkt fyrirbæri er ekki hægt að sjá nema hugsanlega á einum öðrum stað í heiminum. Þarna eru ýmsar gerðir eldstöðva. Svæðið skartar tveimur hraunskjöldum (dyngjum) í Háleyjarbungu og Skálafelli. Þá eru Stampagígarnir, sem mynduðust í Reykjaneseldum á 13. öld, einkar áhugaverðir sem og Stampahraun yngra og gígaröðin öll. Reykjaneseldar hófust með neðansjávargosum 1210-1211 og hefur verið talið að Eldey hafi þá risið úr sæ  en þessi  77 metra háa klettaeyja er ein af stærstu súlubyggðum heims. Við Reykjanes hafa orðið a.m.k tíu eldgos á sögulegum tíma.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þarna birtist landrekskenningin okkur ljóslifandi með sprungum og misgengjum. Fjöldi ferðamanna kemur á svæðið til að ganga yfir álfubrúna er tákna skal skil tveggja jarðskorpufleka sem Ísland hvílir á.  Þá leggja margir leið sína að Gunnuhver sem hefur verið í miklu fjöri undanfarin ár. Margir fara jafnframt að Valahnúk, hinni fornu eldstöð,  þar sem fyrsti viti landsins var reistur árið 1878. Þetta myndræna og magnaða landslag er fullkomnað með grimmilegum átökum haföldunnar við hraunklappirnar.

Umrætt svæði er aðeins steinsnar frá alþjóðaflugvelli og þéttbýlinu. Það gerir svæðið einkar hentugt undir eldfjallagarð eða Geopark. Nú þegar hefur því  verið raskað umtalsvert með virkjunarframkvæmdum. Úr því að virkjunin er til staðar gæti hún  verið sýnidæmi í slíkum garði um nýtingu jarðhita. Það væri hins vegar afar misráðið að raska þessu svæði enn frekar með fleiri virkjununarmannvirkjum. Það myndi hafa mikil áhrif á  ásýnd þess og þá möguleika sem þetta magnaða svæði hefur upp á bjóða í ferðaþjónustu, þeirri atvinnugrein sem er í hvað mestum vexti hér á landi.

Í þingsályktunartillögu að Rammaáætlun var Stóra-Sandvík sett í orkunýtingarflokk. Margt bendir til að jarðhitanýting á þessu svæði  sé ekki sjálfbær. Að minnsta kostir ríkir um það óvissa og þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni ætti að setja Stóru-Sandvík í biðflokk og helst í verndarflokk. Þá skal einnig minnt á nálægðina við þéttbýlið og óvissu um framtíðaráhrif mengunar frá jarðvarmavirkjunum.

Jón Trausti lýsti svæðinu vel í fáum orðum í ferðasögu um Suðurnes þar sem hann segir:
 „Reykjanesið er undarlegur skapnaður. Ekkert er þar nógu stórvaxið til að geta kallast hrikalegt, en allt er þar úfið, svipþungt, grettið og grimmúðlegt.“

Það segir okkur talsvert að einstakt landslag svæðisins hefur kallað til sín fjölda listamanna sem þar hafa málað, ljósmyndað og kvikmyndað. Flestir vita að Clint Eastwood filmaði þar tvær stórmyndir. Ekki ófrægari hljómsveit en Take That tók upp tónlistarmyndaband þar sem kynngimagnað og hrjúft landslagið á Reykjanesi er notað sem umgjörð, sjá hér: http://www.youtube.com/watch?v=273eSvOwpKk

Að lokum er hér er myndband sem ég gerði um áhugaverða gönguleið á svæðinu.
http://www.vf.is/Gonguleidir-a-Reykjanesi/49988/default.aspx

Bestu kveðjur,
Ellert Grétarsson,
náttúruljósmyndari. 
Við Gunnuhver

Gjárnar á Reykjanesi, við Álfubrúna, eru skoðunarverðar.



Brimið við Reykjanes heillar marga.

Valbjargargjá. Reykjanesviti fjær. Hér er á ferðinni svipað jarðfræðifyrirbrigði og á Þingvöllum, þ.e. sigdæld.

Fallegur gatklettur yst á Reykjanesi við svokallaðar Skemmur.

Í Stampahrauni er ævintýralegt, dulúðugt  landslag og kynjamyndir við hvert fótmál.

Skálafell er gosdyngja sem hefur að geyma fagra gígskál á toppi. Flest hraunin yst á nesinu eru þaðan komin.
Til hægri sést til Gunnuhvers og Valahnúks til vinstri.