Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Reykjanes Jarðvangur hefur skilað miklum árangri
  • Reykjanes Jarðvangur hefur skilað miklum árangri
Laugardagur 7. júní 2014 kl. 09:42

Reykjanes Jarðvangur hefur skilað miklum árangri

Þessa dagana stendur yfir önnur jarðvangsvika í Reykjanes Jarðvangi. Á dagskrá eru gönguferðir, fyrirlestrar um uppbyggingu ferðaþjónustu og markaðsmál, útgáfa barnabókar um náttúru Reykjaness og margt fleira. Veitingamenn leggja áherslu á að nýta hráefni af svæðinu og stærsta hjólreiðakeppni landsins, Bláa Lónsþrautin, fer fram í Jarðvangnum.

Markmið Reykjanes Jarðvangs er að ná samstöðu um að byggja upp ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi á þeim styrkleika sem felst í jarðminjum Reykjaness. Flekaskilin milli Ameríku og Evró-Asíu eru grunnur alls þess sem við erum að vinna með. Án flekaskilanna væri engin jarðvarmi og þar af leiðandi ekki þær gígaraðir og háhitasvæði sem einkenna svæðið. Án þeirra væru heldur engin orkuver og ekkert Blátt Lón. Sérstaða Reykjaness eru flekaskilin og allt sem við getum kallað GEO.

Í áratugi hefur verið rætt um stofnun einhverskonar jarðminjagarðs á Reykjanesi. Með tilkomu Reykjanes jarðvangs hefur náðst að koma saman þeim aðilum sem nauðsynlegir eru til að  raungera þær hugmyndir . Reykjanes jarðvangur er stórt samfélagslegt verkefni sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum standa að ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa Lóninu, Heklunni – Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja, HS Orku og Keili. Á dögunum bættist Þekkingasetur Suðurnesja í hópinn og standa vonir til þess að fleiri sjái sér hag í að gerast aðilar. Markmið jarðvanga er að bæta viðhorf og þekkingu á jarðminjum og náttúru, byggja upp jarðfræðiferðamennsku t.d. með uppsetningu fræðsluskilta, bæta merkingar á gönguleiðum, gefa út þjónustu- og/eða gönguleiðakort, svo eitthvað sé nefnt.
Á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá stofnun Reykjanes jarðvangs hefur margt áunnist. Fyrir það fyrsta að ná samstöðu meðal ofangreindra aðila um að sækja um vottun sem alþjóðlegur jarðvangur. Með vottuninni fær Reykjanes gæðastimpil sem svæði sem inniheldur einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Sú staðfesting ætti að verða mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu á svæðinu.

Sameiginlegur sjóður til uppbyggingar ferðamannastaða innan Reykjanes jarðvangs
Undir lok síðasta árs samþykktu þeir aðilar sem standa að Reykjanes jarðvangi að stofna sjóð sem ætlað er að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi. Stofnun þessa sjóðs er mikið framfaraskref fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og íbúa þess. Jarðvangurinn hefur nýtt fjármagnið sem mótframlag við umsóknir í aðra sjóði til ákveðinna framkvæmda og gengi vel. Fyrsta verkefnið  er að bæta aðstöðu og upplýsingar til gesta við Reykjanestá. Í ár hefur Reykjanes jarðvangur um 13 milljónir til framkvæmda á svæðinu og er áhersla lögð á að bæta upplýsingagjöf með skiltum, laga göngustíga og bílastæði og reyna að fá þjónustuaðila til að setja upp meiri starfsemi á svæðinu. Nú í júní verður stikuð svokölluð 100 gíga gönguleið sem Ari Trausti Guðmundsson hannaði. Í jarðvangsvikunni stóð Reykjanes jarðvangur fyrir gönguferð með Ara Trausta um svæðið og mættu á fimmta tug gesta.
Framtíð Reykjanes jarðvangs er björt og er ekki nokkur vafi í mínum huga að samstarfið inn Reykjanes Jarðvangs mun skila okkur vottun sem alþjóðlegur jarðvangur og auknum tækifærum í jarðminjatengdri ferðaþjónustu.

Róbert Ragnarsson,
bæjarstjóri í Grindavík og formaður stjórnar Reykjanes jarðvangs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024