Reykjanes jarðvangur er veigamikill þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar
Á vef Víkurfrétta þann 21. janúar 2014 birtist grein eftir Kristján Pálsson fyrrverandi formann Ferðamálasamtaka Suðurnesja og núverandi fulltrúa Reykjanesbæjar í stjórn Reykjanesfólkvangs undir yfirskriftinni „Skemmdarverk í ferðaþjónustunni“. Kristján gerir þar tilraun til þess að rífa niður gott starf í ferðaþjónustu sem unnið er með hagsmuni íbúa Suðurnesja að leiðarljósi.
Kveikjan að grein hans er fundur sem undirritaður og Eggert Sólberg Jónsson verkefnisstjóri Reykjanes Jarðvangs áttu með stjórn Reykjanesfólkvangs þann 17. janúar. Velgengni Jarðvangsverkefnsins virðist fara í taugarnar á honum og sérstaklega virðist honum í nöp við Grindvíkinga. 0Það á líklega rót sína í því að Grindvíkingar í ferðaþjónustu voru gagnrýnir á störf Kristjáns í Markaðsstofu Suðurnesja og Ferðamálasamtökum Suðurnesja. Auk þess tók undirritaður að sér, ásamt öðrum í stjórn MS, að leysa úr ýmsum málum eftir brotthvarf hans úr Markaðsstofunni. Svo sem að greiða úr skuldbindingum vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um jarðminjatengda ferðaþjónustu.
Alþjóðlega ráðstefnan illa undirbúin
Kristján Pálsson hefur áður farið mikinn í fjölmiðlum þar sem hann ræðir alþjóðlega ráðstefnu sem Markaðsstofa Suðurnesja ætlaði að standa fyrir um jarðminjatengda ferðaþjónustu á Íslandi. Honum er mikið í mál að skrifa söguna eins og honum hentar best. Það er rétt að ný stjórn Markaðsstofu Suðurnesja ákvað að aflýsa ráðstefnunni enda undirbúningur ráðstefnunnar skammt á veg kominn. Fullyrðingar Kristjáns um fjárhagslegan stuðning fyrirtækja og stofnanna stóðust ekki og var útlit fyrir að Markaðsstofan yrði fyrir milljóna tjóni ef haldið yrði áfram að óbreyttu. Að mati Kristjáns var eðlilegt að sveitarfélögin myndu ábyrgjast fjármál ráðstefnunnar og hafði hann þegar greitt erlendum eiganda ráðstefnunnar stórfé og lofað meiru. Það var því að okkar mati óábyrgt að halda áfram, en Kristjáni og hinum erlenda eiganda var boðin aðstoð við að halda ráðstefnuna sjálfir fyrir eigin reikning og áhættu.
Önnur atvinnustarfsemi í jarðvangi
Kristján heldur áfram að agnúast út í Grindvíkinga og heldur því fram að uppbygging annarrar atvinnustarfsemi í Grindavík muni eyðileggja áformin um Reykjanes Jarðvang. Hið rétta er að innan jarðvanga getur vel þrifist ýmis atvinnustarfsemi, svo sem vinnsla endurnýjanlegrar orku og framleiðsla matvæla með þeirri orku. Á Reykjanesi eru starfandi stór matvælafyrirtæki ásamt orkuveri. Í hjarta jarðvangsins. Úttektaraðilarnir gerðu ekki athugasemdir við það, ekki frekar en að Kristján gerði athugasemdir við risa fiskeldi í landi Reykjanesbæjar við Reykjanes.
Grindvíkingar í fararbroddi Reykjanes jarðvangs
Í áratugi hefur verið rætt um stofnun einhverskonar jarðminjagarðs á Reykjanesi. Reykjanes jarðvangur er stórt samfélagslegt verkefni sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum standa að ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa Lóninu, Heklunni – Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja, HS Orku og Keili. Kristján heldur því ranglega fram að Grindvíkingar hafi með semingi samþykkt þátttöku í verkefninu með skilyrðum. Hið rétta er að Grindvíkingar höfðu forgöngu um að verkefnið næði fram að ganga og lýstu sig reiðubúna til að vera stærstu greiðendur ef það mætti verða til þess að verkefnið næði flugi. Verkefnið er mikið hagsmunamál fyrir Grindvíkinga, enda er það landstærsta sveitarfélag Suðurnesja og ferðaþjónusta mikilvæg stoð í atvinnulífinu. Verkefnið á sér auk þess stoð í Auðlindastefnu Grindavíkur.
Reykjanes jarðvangur er skrefi nær alþjóðlegri viðurkenningu
Sótt var um aðild að alþjóðlegum samtökum jarðvanga, EGN, í nóvember 2012. Úttektaraðilar á vegum samtakanna komu til landsins sumarið 2013 og hittu forsvarsmenn allra sveitarfélaga og fyrirtækja sem standa að jarðvangnum auk fjölda annarra hagsmunaaðila. Þessir aðilar skiluðu skýrslu um svæðið til haustþings EGN þar sem fram komu ábendingar um það sem uppá vantar til þess að Reykjanes fái aðild að samtökunum. Svæðið fékk þá umsögn að það væri einstakt á heimsvísu og ætti svo sannarlega heima inn í samtökum jarðvanga. Umsögn sérfræðinganna var jákvæð, en gerðar voru athugasemdir um uppbyggingu innviða, svo sem stíga og merkingar, stefnumótun og óskað eftir frekari gögnum, sem verið er að vinna að.
Það eru hreinir hugarórar Kristjáns Pálssonar að úttektaraðilarnir hafi ekki fengið að hitta ráðandi aðila, að þeir hafi ekki fengið upplýsingar um það sem stæði til og að þeim hafi ekki verið gert ljóst hvernig samstarfi innan Reykjanes jarðvangs sé háttað. Það er enn fremur rangt að Reykjanes jarðvangur megi sækja aftur um aðild að samtökunum eftir tvö ár þar sem umsókn Reykjanes jarðvangs var ekki hafnað, afgreiðslu hennar var frestað þar til skilað hefur verið inn viðbótargögnum. Það má jafnframt geta þess að það er ekki gert ráð fyrir því að jarðvangar séu teknir inn í samtökin með svo stuttum umsóknarfresti og án aðlögunar. Gert er ráð fyrir því að ferlið taki 2-3 ár og með þeim formerkjum var sótt um aðild árið 2012.
Sameiginlegur sjóður til uppbyggingar ferðamannastaða innan Reykjanes jarðvangs
Undir lok síðasta árs samþykktu þeir aðilar sem standa að Reykjanes jarðvangi að stofna sjóð sem ætlað er að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi. Stofnun þessa sjóðs er mikið framfaraskref fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og íbúa þess. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn geti sótt um mótframlög í aðra sjóði til ákveðinna framkvæmda. Fyrsta verkefni þessa sjóðs er að bæta aðstöðu og upplýsingar til gesta við Valahnúk. Framlög aðila sem standa að Reykjanes jarðvangi nema um 5 milljónum í ár, og er stefnt að því að tvöfalda þá fjárhæð hið minnsta með framlögum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og öðrum styrkjum.
Framtíð Reykjanes jarðvangs er björt
Rétt er að halda til haga að starfsemi Reykjanes jarðvangs einskorðast ekki við jarðminjar og að bæta aðgengi að þeim. Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum tveimur árum á fleiri sviðum. Sem dæmi má nefna að unnið hefur verið markvisst að samstarfi einstaklinga, félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem á einn eða annan hátt tengjast jarðvangnum á sviði menntunar, fræðslu og hönnunar. Þá eru í undirbúningi alþjóðleg verkefni sem tengjast matarmenningu svæðisins,útgáfa barnabókar og námskeið um leiðsögn í jarðvangi svo eitthvað sé nefnt.
Það hefur verið unnið mjög gott starf á vettvangi ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum eftir að Kristján Pálsson lét af störfum. Skrif hans og úrtölur munu ekki breyta því og verður hann að eiga sína biturð við sjálfan sig.
Róbert Ragnarsson
Bæjarstjóri í Grindavík og formaður stjórnar Reykjanes Jarðvangs