Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 19. mars 2003 kl. 18:18

Réttlátt stjórnkerfi í fiskveiðum

Í komandi alþingiskosningum gefst kjósendum færi á að gefa stefnumálum þeirra flokka sem bjóða sig fram til alþingis einkunn með atkvæði sínu. Þrátt fyrir tilhneigingu ákveðinna stjórnmálamanna, með stuðningi fjölmiðla, til þess að fela málefnin og láta persónur algerlega ráða ferðinni, mun afstaða flokkanna í ákveðnum málum ráða mestu þegar í kjörklefann kemur. Á Suðurnesjum hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem þarf til að það blómstri. Óvíða er meira atvinnuleysi á landinu og óréttlátt kerfi í sjávarútvegi hefur gert ástandið verra. Þeir sem telja að stjórnvöldum hafi mistekist við stjórn sjávarútvegsmála fá tækifæri til að sýna það í verki í kosningunum í vor.Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar algjörlega óstjórn núverandi stjórnvalda í fiskveiðimálum. Með kvótabraski og sinnuleysi gagnvart byggðum landsins hafa fiskveiðiheimildir þjóðarinnar safnast á æ færri hendur– með stuðningi ríkisstjórna Davíðs Odssonar. Við teljum að stjórn fiskveiða eigi að byggjast á því að sem flestir njóti afrakstursins af fiskimiðunum – sameign allra landsmanna. Það er ógerlegt í núverandi kerfi þar sem hagkvæmni stærðarinnar, kröfur um hagræðingu og afl fjármagnsins hafa greitt hinum dreifðu byggðum landsins þung högg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram metnaðarfulla sjávarútvegsstefnu. Hún gengur í meginatriðum út á það að fiskveiðiheimildir þær sem nú eru í höndum einkaaðila, verði fyrndar í áföngum. Fimm prósentum heimildanna verði skilað inn árlega þannig að eftir tuttugu ár verði heimildarnar að fullu komnar aftur í sameiginlega eigu þjóðarinnar. Þeim veiðiheimildum sem fyrnast ár hvert verður ráðstafað jafnóðum á eftirfarandi hátt:


- Þriðjungur verði til byggðatengdrar ráðstöfunar fyrir sjávarbyggðir umhverfis landið. Við skiptingu veiðiréttindanna milli sveitarfélaga verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og/eða vinnslu í atvinnulífi viðkomandi sjávarbyggða og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali sl. tuttugu ár. Hlutaðeigandi sveitarfélög ráðstafa þessum þriðjungi veiðiheimildanna fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem þeim tilheyra. Óheimilt verði að framselja byggðatengd veiðiréttindi varanlega frá sveitarfélagi.

- Þriðjungur verður boðinn upp á landsmarkaði og útgerðum gefinn kostur á að leigja þær til allt að sex ára í senn. Fyrirtækjum sem stunda frumvinnslu sjávarafurða gefist einnig kostur á að bjóða í veiðiheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu þeirra undangengin ár samkvæmt nánari reglum. Leigutekjum vegna þessara aflaheimilda skal skipt milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum sem settar verði.


- Þriðjungur verði boðinn þeim handhöfum veiðiréttarins sem fyrnt er frá til endurleigu gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgi sú kvöð að réttindin verði aðeins nýtt af viðkomandi aðila. Ráðstöfun þessa hluta aflaheimilda verði tekin til endurskoðunar áður en 20 ára fyrningartímabilinu lýkur.



Með þessu kerfi skapast grundvöllur til réttlátrar stýringar á sókn okkar í auðlindina. Aflaheimildir verða bundnar byggðalögum og tekið er fyrir þá meinsemd að þær safnist á fárra hendur. Hér eru á ferð heilsteyptar, raunhæfar tillögur sem gætu stuðlað að sátt þjóðarinnar um fiskveiðistjórnarkerfi, án þess að setja útgerðarfyrirtækjum og einyrkjum þungan klafa á herðar með óhóflegri gjaldtöku. Í þessum hugmyndum er gert ráð fyrir því að horfið verði af þeirri óheillabraut sem ríkisstjórnin fetaði með breytingum á fiskveiðistjórn krókabáta. Með því að kvótasetja aukategundir, fækka sóknardögum o.fl. hjó sjávarútvegsráðherra verulega að rótum smábátaflotans, en hann er mikilvæg undirstaða byggðalaga líkt og sjávarplássa á Reykjanesi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur brýnt að efla grunnslóðarflotann og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og vistvænum útgerðarháttum. Í því skyni er lagt til að teknir verði upp mismunandi nýtingarstuðlar eftir þeim veiðarfærum sem notuð eru. Þannig verði afli sem tekinn er á handfæri með stuðulinn 0,8 – afli á línu með 0,85 – afli í önnur kyrrstæð veiðarfæri 0,95 og afli í dregin veiðarfæri, t.a.m. troll, yrði 1,0. Þetta myndi t.a.m. þýða það að fyrir hvert tonn af veiddum þorski á handfæri myndi aðeins reiknast 0,8 tonn af aflaheimildum. Togarar myndu hins vegar vera með stuðulinn 1 og þannig reiknast tonn af aflaheimildum fyrir hvert tonn dregið úr sjó. Með þessu er vistvænum strandveiðum gert hærra undir höfði en þeirri útgerð sem hefur meiri umhverfisspjöll í för með sér, um leið og styrkum stoðum er skotið undir atvinnulíf þeirra byggðarlaga sem byggja á smábátaveiðum.

Á ofansögðu má ljóst vera að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skýra og raunhæfa stefnu í sjávarútvegsmálum. Ekki er gengið of nærri útgerðinni um leið og eðlilegur réttur þjóðarinnar til eigna sinna er tryggður. Sátt í sjávarútvegsmálum er aðeins hægt að tryggja með því að skýlaus réttur þjóðarinnar til auðlinda hafsins sé virtur. Fyrir því mun Vinstrihreyfingin – grænt framboð berjast og með því að setja x við U í komandi kosningunum stuðla kjósendur að því að réttlæti í sjávarútvegsmálum komist á dagskrá og jafnvægi í byggðum landsins.

Kolbeinn Óttarsson Proppé
Höfundur skipar 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024