Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Réttlátara og betra almannatryggingakerfi
Föstudagur 12. apríl 2013 kl. 09:48

Réttlátara og betra almannatryggingakerfi

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, lagði fram á síðasta þingi nýtt frumvarp um almannatryggingar. Meginmarkmiðið er að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra. Einnig munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfar breytinganna.

Róttækar breytingar
Með frumvarpinu er brotið blað þar sem að róttækar breytingar eru lagðar til. Þær eru fjölmargar en þær stærstu eru í samræmi við meginmarkmiðið og snúa að margvíslegum réttindamálum ellilífeyrisþega sem munu styrkja stöðu þeirra og einfalda kerfið. Meðal breytinganna er eftirfarandi:

Bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót verða sameinaðir.

Dregið verður úr tekjutengingum og frítekjumörk verða afnumin.

Ekki verður lengur horft til þess hvaðan tekjurnar koma, heldur lækkar lífeyrir um 45% af tekjum, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur.

Ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna framfærslu munu ekki sæta því að uppbótin lækki um krónu á móti krónu fái þeir einhverjar tekjur.

Samkvæmt frumvarpinu verður dregið úr þessum áhrifum tekna í áföngum og fer í 45% á þremur árum.
Skýrt er kveðið á um markmið og tilgang laganna.

Mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur verða greiddar eftir á, líkt og almennt gildir um launagreiðslur á vinnumarkaði.

Framsetningin er öll bætt og einfölduð, ítarlega er kveðið á um málsmeðferð og stjórnsýslu og áhersla lögð á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Loksins, loksins
Í mörg ár hefur verið talað um að gera grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu. Í gegnum tíðina hefur kerfið orðið æ flóknara þannig að þeir, sem eiga að njóta þess, eiga orðið erfitt með að skilja hver réttur þeirra er. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG var því lofað að endurskoða ætti almannatryggingakerfið frá grunni á kjörtímabilinu. Starfshópurinn sem skipaður var hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum vann frábært starf undir stjórn Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns. Vegna umfangs verksins náðist ekki að gera frumvarpið að lögum en það er tilbúið, fyrsta umræða fór fram í þinglok og umsagnir komnar í hús.

Ekkert er því að vanbúnaði að gera frumvarpið að lögum á næsta sumarþingi ef vilji nýs þings stendur til þess. Samfylkingin mun gera það að forgangsverkefni fái hún til þess stuðning í kosningunum enda er hér um stórkostlega og löngu tímabæra kjarabót að ræða fyrir eldri borgara þessa lands.

Oddný G. Harðardóttir,
oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024