Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Réttlátara Ísland
Þriðjudagur 7. apríl 2009 kl. 11:26

Réttlátara Ísland


Á átján ára valdaskeiði Sjálfstæðisflokksins varð mikil samþjöppun á auði. Bilið á milli þeirra sem mest hafa og minnst fór vaxandi, atvinnugreinarnar söfnuðu skuldum á móti eignum sem voru tilkomnar af viðskiptavild og uppskrúfuðum góðærisverðum fasteigna. En fá mein í samfélaginu eru þó verri en ýmsar afleiður kvótakerfisins enda brýtur á mannréttindum í kerfi sem hefur skipt sjómönnum í stéttir sægreifa og leiguliða þar sem annar nýtur góðs af elju og iðjusemi hins. Mig langar til þess að deila með ykkur reynslusögu leiguliða sem ég heyrði á vinnustað á dögunum. Við þurfum réttlátara Ísland.

Saga af leiguliða


Trillueigandi á Suðurnesjum hugðist gera góðverk með því að lána atvinnulausum nágranna sínum trillu sem hann átti og hafði ekki nein sérstök not fyrir. Gerðu þeir félagar bátinn kláran og leigðu á hann kvóta, eins og lög gera ráð fyrir, tonn af hvoru ýsu og þorski. Leiguverð á þorski var 220 kr. á kílóið en 45 kr. fyrir ýsuna. Þann 3. janúar s.l. var svo róið á miðin með tólf bjóð.

Til þess að létta grannanum lífið fór trillueigandinn með í fyrsta túrinn en þegar dæmið var gert upp varð þeim báðum ljóst að sá yrði jafnframt þeirra síðasti. Aflabrögð voru nokkur eða um 150 kg af þorski en fyrir hvert kíló fengu þeir 187 kr. á fiskmarkaðinum eftir að frá hafði verið dregin uppboðskostnaður og löndunarþjónusta. Þeir grannar veiddu um 900 kíló af ýsu og var kílóið selt á um 90 kr. á fiskmarkaðinum. Þegar kvótaleigan hefur verið dregin frá söluandvirði aflans hafði leiguliðinn rétt innan við 45.000 kr. í tekjur. Beinn kostnaður við beitu og ábót fyrir bjóðin tólf var um 20.000 kr. en atvinnulausi nágranninn beitti línuna sjálfur. Varlega má áætla að olíukostnaður hafi verið um 10.000 krónur og því hafði leiguliðinn 15.000 kr. eða svo upp úr krafsinu fyrir þá þriggja daga vinnu sem hann lagði í verkið. Er þá ótalinn ýmiss kostnaður s.s. báturinn sjálfur, sem granninn fékk að kostnaðarlausu, efni og vinna sem til þurfti til þess að gera bátinn sjókláran en báturinn hafði verið á landi og ónotaður um nokkurt skeið og þurfti svolítið að ditta að honum fyrir sjóferðina. Ekki lagaði það stöðuna að við það að fara þennan róður var hann komin með virðisaukaskattskyldan rekstur og datt því tímabundið út af  atvinnuleysisbótum. Það sem trillueigandinn hafði gert af góðum hug fyrir granna sinn reyndist því að lokum vera hinn mesti bjarnargreiði og er sá atvinnulausi fyrir vikið í verri málum en ef ekkert hefði verið að gert.

Nýja Ísland

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Sjávarútvegurinn á eftir að gegna lykilhlutverki þjóðinni til heilla í því endurreisnarstarfi sem framundan er og er afar mikilvægt að ná fram réttlátara aðgengi að auðlindinni svo ekki leiki vafi á um að auðlindir hafsins séu í raun og sann sameign þjóðarinnar. Stjórnarskrárbindum það. Vinstrihreyfingin Grænt framboð vill lúta áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og skapa réttlátara aðgengi að auðlindinni svo hún sé og verði sannanlega eign þjóðarinnar og stoð atvinnu í byggðalögum. Nýtt Ísland þarf að vera réttlátara en það gamla, stöndum vörð um það.

Bergur Sigurðsson,
Skipar 4. sæti á  lista VG í Suðurkjördæmi.