Fimmtudagur 9. apríl 2009 kl. 21:49
Réttlátar lausnir – fyrir okkur öll
Það var ekki bjartsýni sem fylgdi manni út í vorið eftir að hafa horft á Silfur Egils á sunnudaginn var . Þekktir erlendir sérfræðingar Michael Hudson og John Perkins voru þar í viðtali og ræddu um stríðið við Ísland. Efnahagsárásina sem erlendir fjármagnseigendur- óligarkar- í stóru löndunum, Bandaríkjum, Bretlandi og Evrópusambandinu, hefðu gert á Ísland til að komast yfir auðlindir okkar. Árás sem íslenskir bankamenn studdu dyggilega með framferði sínu. Árásarmenn sem fengu að athafna sig í friði fyrir íslenskum stjórnvöldum. Hudson þessi hefur jafnframt skrifað greinar sem birst hafa í Fréttablaðinu og hafa vakið verðskuldaða athygli. Þar vekur hann máls á að nauðsynlegt sé að lækka höfuðstól skulda. Leið sem Obama stjórnin í Bandaríkjunum sé að fara til að koma á stöðugleika og forðast dýpri kreppu. Leið sem fleiri ríki eru að fara til þess að heimili og fyrirtæki geti staðið í skilum.
Afneitun Samfylkingar og Vinstri-Grænna
Hér á landi neitar minnihluta ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna að skoða tillögur Framsóknarmanna um leiðréttingu vísitölu og niðurfærslu höfuðstóls skulda. Sem sagt, sömu leið og fara á í Bandaríkjunum og víðar. Og það þrátt fyrir að hérlendis bætist við hið séríslenska óréttlæti, verðtryggingin. Verðtryggingin gerir skuldirnar á Íslandi enn óréttlátari gagnvart hinum almenna borgara. Verðtryggingin gerir það að verkum að við verðum að taka almennt á vandanum.
Hér duga engin vettlingatök. Við verðum að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja með róttækum hætti. Ekki bíða eftir að fólk komist í þrot og sæki um greiðsluaðlögun til ríkisins og fái tilsjónarmann og framlengingu skulda.
Aðgerðir strax - við höfum til þess óvenjulega góðar aðstæður þar sem erlendir fjármagnseigendur, þeir sömu og réðust á okkur verða að afskrifa stærsta hluta krafna sinna. Afskriftin verður u.þ.b. 50% á þau lán sem færast úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.
Við erum ekki að tala um hin vonlausu lán íslensku óligarkanna – útrásarvíkinganna - þar verður afskriftin sennilega nær 98-99% og fellur öll á gömlu bankanna.
Lausnir
Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögur að lausnum í 18 liðum. Þar er ein hugmyndin 20% leiðrétting á .þeim skuldum sem nýju bankarnir yfirtaka. Réttlát lausn sem setur alla venjulega skuldara jafna fyrir þeirri efnahagárás sem við höfum orðið fyrir. Enginn kostnaður fellur á Ríkið – okkur, ef við förum þessa réttlætisleið.
Hugmyndin er að hluti afskriftanna, sem erlendir kröfuhafar hafa afskrifað, gangi til skuldaranna en ekki öll til nýju bankanna. Sjá nánar www.framsókn.is .
Sigurður Ingi Jóhannsson
Höfundur er oddviti Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.