Réttlæti og lýðræði fara ekki alltaf saman!
Fyrir um tveimur árum var kosið til sveitarstjórnar í Garðinum og bauð ég mig þá fram ásamt fleirum undir merkjum D-lista. Jafnframt buðum við fram bæjarstjóra, Ásmund Friðriksson, sem hafði gert góða hluti frá því hann var ráðin árinu fyrr, reyndar þá af N-lista. D-listinn lagði fram vandaða stefnuskrá sem hafði verið lögð mikil vinna í af þeim sem á listanum voru auk fjölda íbúa. Þegar talið var uppúr kjörkössunum þá var vilji kjósenda mjög skýr - D-listi hafði fengið 55% atkvæða og skýrt umboð til að framfylgja stefnuskrá sinni. Þarna hafði lýðræðislega verið kosið og hreinn meirihluti fengið réttláta niðurstöðu.
Núna tveimur árum seinna ákveður einn bæjarfulltrúi að stökkva frá borði og fara að starfa með minnihlutanum. Þetta gerir að verkum að 55% íbúa hafa ekki lengur það vægi sem þeir töldu - lýðræðið er ekki að ná fram að ganga. Nú gæti einhver sagt að þegar einn liðsmaður fer þá fari fylgi með honum. Það má til sannsvegar færa að þannig getur það verið, en svo virðist ekki vera í þessu tilviki.
Á dögunum var framkvæmd skoðannakönnun meðal Garðbúa og var úrtakið mjög stórt eða 470 manns sem er nær helmingur kosningarbærra manna í Garðinum. Niðurstaða þeirrar könnunar var að ef gengið yrði til kosninga í dag fengi D-listi um 67% atkvæða eða enn meira fylgi en í kosningunum 2010. Það er því greinilegt að vilji Garðmanna er að D-listi fari áfram með stjórnun bæjarins og haldi áfram að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem við höfum þegar hafið. En nú bregður svo við að réttætið nær ekki fram að ganga, því lýðræðinu er ekki framfylgt.
Í sömu könnun kom einnig fram að íbúar Garðs virðast mjög ánægðir með störf fráfarandi bæjarstjóra, enda vilja um 60% íbúa hafa Ásmund Friðriksson áfram sem bæjarstjóra. Aftur er lýðræðinu ekki framfylgt því búið er að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra.
Hvernig verður þá lýðræðisleg niðurstaða ofaná og vilji meirihluta íbúa Garðs virtur og réttlætinu framfylgt? Svarið er augljóst.
Ég skora á Kolfinnu S. Magnúsdóttur að snúa heim eða segja ella af sér sem bæjarfulltrúi og þannig lúta vilja meirihluta íbúa Garðs, sem kusu hana í síðustu kosningum til starfa fyrir D-lista og stefnu hans.
Einnig mætti hugsa sér að þeir sem skipa lista þann sem hafa íbúalýðræði mjög ofarlega á stefnuskrá sinni hlusti á vilja íbúa og hefji samstarf með D-listanum.
Vilji er allt sem þarf!
Einar Jón Pálsson
Oddviti D-lista