Rétt skal vera rétt !
Ég las grein Sigmars Edvardssonar í Víkurfréttum og verð ég að segja að ég undrast mjög sú vanþekking formanns bæjarráðs þegar hann segir að Grindavíkurbær sé búinn að breyta aðal- og deiliskipulagi fyrir umrædda byggingu á reit Festis og að hægt sé að hefjast handa strax. Ég vil glaður leiðrétta hans mál og upplýsa aðra í leiðinni um að staðreyndin er sú að aðal og deiliskipulagstillagan er komin frá skipulagsstofnun og er í auglýsingaferli sem tekur 6 vikur en því ferli lýkur þann 4. apríl n.k. Eftir þann tíma fara tillögurnar fyrir byggingar- og skipulagsnefnd og verður farið yfir athugasemdir ef þær berast en ef engar athugasemdir eru teljast tillögurnar samþykktar. Næst þarf að birta samþykktar tillögur í b-hluta stjórnartíðinda til þess að þær öðlist gildi.
Ég efast um að nokkur framkvæmdaraðili vilji fara með sínar framkvæmdir lengra fyrr en að aðal og deiliskipulag liggi klárt fyrir. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið þá liggja deiliskipulags og aðalskipulagstillögurnar til skoðunar fyrir almenning á bæjarskrifstofum Grindavíkurbæjar og á vefsvæðinu www.grindavik.is.
Með vinsemd og virðingu í von um að kjörnir fulltrúar fari framvegis með rétt mál.
Pétur Breiðfjörð
Fulltrúi B lista í skipulags- og byggingarnefnd Grindavíkurbæjar