Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Rétt skal vera rétt!
  • Rétt skal vera rétt!
    Ragnar Örn Pétursson.
Laugardagur 22. mars 2014 kl. 17:32

Rétt skal vera rétt!

– Ragnar Örn Pétursson skrifar.

Vegna einhliða fréttaflutnings af samþykktri tillögu kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, þar sem kjörnefnd er ásökuð um að berjast gegn ákveðnum frambjóðanda af honum sjálfum, sem er ekki rétt, er ég tilneyddur til að lýsa aðdraganda og niðurstöðum máls.

Prófkjör okkar sjálfstæðismanna var haldið 1. mars sl. Allir frambjóðendur sem tóku þátt í prófkjörinu undirrituðu yfirlýsingu þess efnis að þeir hafi kynnt sér prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins og samþykktu þær leikreglur sem um prófkjör gilda. Þar er skýrt kveðið á um að ef þátttaka sjálfstæðismanna er ekki 50% eða meiri, þá eru niðurstöður prófkjörs ekki bindandi. Þátttaka í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ náði ekki þessum mörkum. Einnig segir að ef þátttaka er yfir 50%, þá hljóta þeir einir bindandi kosningu sem fá yfir 50% stuðning eða meira í það sæti. Með öðrum orðum, ef frambjóðandi nýtur ekki meiri stuðnings en svo að minna en 50% af þeim sem taka þátt í prófkjörinu kjósa hann ekki samanlagt í það sæti sem hann lendir í og öll önnur sæti fyrir ofan það, þá getur hann ekki gert tilkall um að fá það sæti.

Þetta vissu allir frambjóðendur og undirrituðu yfirlýsingu um að þeir samþykktu þetta og voru tilbúnir að taka þátt í prófkjörinu á þeim forsendum. Allir frambjóðendur í sjö efstu sætum listans náðu 50% kosningu eða meira í sitt sæti, nema Gunnar Þórarinsson. Hann sóttist eftir 1.-2. sætinu en endaði í 5. sæti og fékk ekki samanlagt 50% atkvæða eða meira í það sæti.

Þegar niðurstöður prófkjörs lágu fyrir var ljóst að mjög hallaði á konur í efstu sætum listans. Aðeins 2 konur voru í 10 efstu sætum hans og aðeins 1 kona var í efstu 5 sætum listans. Þar sem niðurstöður prófkjörs voru ekki bindandi hafði kjörnefnd samkvæmt reglum flokksins heimild til að gera breytingar. Í kjörnefnd sitja sjö aðilar og hafa öll sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ sinn fulltrúa í nefndinni. Í ljósi niðurstöðu prófkjörs var kjörnefnd sammála um að gera breytingar á listanum þannig að hlutur kvenna yrði aukinn, enda hallaði mjög á hlut þeirra.

Kjörnefnd ræddi þessa áherslu við frambjóðendur sem tóku nær allir vel í að taka þátt í þessari vinnu. Böðvar Jónsson sem náði 2. sæti í prófkjörinu var tilbúinn að færa sig í það 3ja þannig að Magnea Guðmundsdóttir yrði í 2. sæti. Einar Magnússon, sem náði 7. sæti í prófkjörinu var tilbúinn að víkja úr því sæti og þáði 21. sætið.

Reynt var með öllum ráðum að fá Gunnar Þórarinsson með í þessa vegferð til að hleypa konu að í 5. sætið. Honum var fyrst boðið að taka 7. sætið og reyndar á sama fundi var óskað eftir við Árna Sigfússon að hann færði sig í 6. sætið, þannig að allir frambjóðendur tækju þátt í þessari vinnu. Árni var tilbúinn að gera það en ekki Gunnar, sem hafnaði 7. sætinu. Í dag eru sjálfstæðismenn með sjö manna meirihluta og hafa verið með þann meirihluta sl. tvö kjörtímabil.

Til þess að ná sáttum var ákveðið að bjóða Gunnari svo 6. sætið en hann hafnaði því og sagði að hann vildi ekki sæti neðar en 5. sætið, annars tæki hann ekki þátt og vildi ekki vera á lista. Meirihluti kjörnefndar ákvað að bjóða honum ekki 5. sætið og á fundi fulltrúaráðs var tillaga kjörnefndar samþykkt.
Mér þykir sú nálgun sem Gunnar kýs að setja fram varðandi þetta mál vera með ólíkindum og lykta af pólitík. Ég vil hins vegar ekki láta málið snúast um hans stöðu heldur vil ég með þessari grein aðeins koma á framfæri réttum upplýsingum til kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Við í kjörnefnd unnum mjög heiðarlega og fagmannlega að þessum lista, sem borinn var undir fulltrúaráðið sem samþykkti hann. Ég vil óska Gunnari alls góðs, vonandi getum við tekið höndum saman og barist áfram fyrir góðum málefnum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.

Ég vil að lokum fyrir mitt leyti hrósa öllum þeim frambjóðendum sem voru tilbúnir að taka þátt í því að gera listann okkar sigurstranglegri og óska ég sjálfstæðismönnum til hamingju með framboðslistann.

Með kveðju,
Ragnar Örn Pétursson
Formaður kjörnefndar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024