Rekstrarvandi Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, vandi Suðurnesjamanna?
Um næstkomandi áramót mun taka til starfa hér á Suðurnesjum nýtt embætti lögreglustjóra Suðurnesja sem verður til þegar er lögreglan á Keflavíkurflugvelli og lögreglan í Keflavík sameinast. Nýr lögreglustjóri Suðurnesja verður sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli sem flyst frá stjórn utanríkisráðuneytis til dómsmálaráðuneytis við brotthvarf varnarliðsins, en sýslumaðurinn í Keflavík mun áfram sinna ýmissi opinberri þjónustu.
Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslu ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2005, er uppsafnaður rekstrarhalli Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli tæpar 100 milljónir króna og hefur skuldasöfnunin átt sér stað a.m.k sl. fimm ár. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins stendur ekki til að leita eftir aukinni fjárveitingu frá alþingi og því er ljóst að við sameiningu þessara embætta þá er staðan neikvæð um 100 milljónir.
Lögreglan á Suðurnesjum mun heyra undir dómsmálaráðuneyti eðli málsins samkvæmt, en í ljósi mikils uppsafnaðs og langvarandi rekstrahalla Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli er eðlilegt að spyrja hvar mun þessum halla verða eytt, en samkvæmt skýrslu ríkisendurskoðunar þá ber forstöðumanni að skera niður þjónustu til að halda sig innan fjárlaga.
Löggæsla á Suðurnesjum þolir ekki frekari niðurskurð og mikilvægt að fá að vita hvar Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli mun leita hófanna við sparnað? Mun dómsmálaráðherra leyfa líkt og utanríkisráðuneytið virðist hafa látið óátalið árum saman að embættið verði í hallarekstri eða mun löggæsla á Suðurnesjum verða fyrir niðurskurðarhnífnum? Við sameiningu þessara embætta má án efa ná fram þó nokkurri rekstrarhagræðingu, en brýnt er þó að löggæsla hér á Suðurnesjum verði ekki skert, hún á hinn veginn að eflast íbúum Suðurnesja til heilla.
Ólafur Thordersen Bæjarfulltrúi A-listans í Reykjanesbæ