Reisum heilbrigðisþjónustuna upp úr rústum eyðileggingar
Það er hreinlega eins og einhver hafi gengið um með sleggju og mölvað innviði íslenska heilbrigðiskerfisins árum saman, þannig að víða standa eftir rústir einar.
Úti um allt land bíða fullbúnar skurðstofur síns tíma, sem aldrei kemur. Þær standa ónotaðar og engum til gagns á meðan fólkið sem þar býr fær ekki nauðsynlega læknisþjónustu.
Sjálfsagt voru einhver hagræðingarök fyrir þeim skaða sem unninn hefur verið síðan sleggjan var tekin upp á sínum tíma, en eins og svo oft áður, gleymdist að gera ráð fyrir fólki í jöfnunni.
Fólki, einstaklingum sem veikjast eða slasast eða ákveða að eiga börn. Þarfir þeirra og réttindi gleymdust en þess í stað var rýnt í tölur á tölvuskjá sem sýndu skammtímahagræðingu og ákvarðanir teknar út frá því.
En fólk, einstaklingar, ég og þú, erum ekki súlurit eða tölur á tölvuskjá. Við erum einstaklingar sem erum eins ólík og við erum mörg. Líf okkar skiptir máli og við eigum kröfu um að virðing sé borin fyrir lífi okkar í stað þess að við séum strípuð öllu, nema því sem hægt er að mæla sem sem skammtímahagræðingu. Tölur á tölvuskjá.
Þjáningar verða ALDREI metnar til fjár. Það getur ALDREI verið réttlætanlegt að einhver búi við alvarleg veikindi eða þjáningar lengur en það tekur að koma honum undir læknishendur.
Við, þú og ég, skiptum máli!
Stóreflum heilbrigðisþjónustu í heimabyggð
Núna þurfa um 6.000 íbúar á Suðurnesjum að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur. Staðan á landsbyggðinni er víðast hvar slæm, jafnvel þótt öll aðstaða sé fyrir hendi og sjúkrahús standi auð og skurðstofur ónotaðar.
Það er ekki ásættanlegt og því verður að breyta. Þetta er ekki spurning um forgangsröðun því hér er um stærsta hagsmunamál okkar allra að ræða. Þó við séum ekki sjálf í þeirri stöðu „núna“ að þurfa á brýnni heilbrigðisþjónustu að halda, þá kemur að því síðar. Eina spurningin er hvenær.
Þegar að þér kemur þá er það þinn réttur að njóta bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á og fyrir utan stærstu læknisaðgerðir á hún að standa þér til boða í þinni heimabyggð! Þetta er sjálfsögð krafa um réttlæti í ríku landi.
Heilbrigðisþjónustan VERÐUR að vera í lagi!
Flokkur fólksins ætlar að reisa við heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni úr rústum eyðileggingar.
Enginn sem þjáist á að lenda á biðlista eftir aðgerð.
Konur eiga að geta fætt í sinni heimabyggð.
Við eigum að manna spítala og heilsugæslur á landsbyggðinni
Við eigum að nýta fullbúnar skurðstofur, að minnsta kosti fyrir smærri aðgerðir.
Við eigum að virða sjálfsögð mannréttindi þeirra sem veikjast eða slasast. Án undanbragða!
Settu X við F fyrir þína framtíð!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Höfundur er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
og í 1. sæti hjá Flokki fólksins í Suðurkjördæmi.