Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reiknikúnstir og raunveruleiki
Þriðjudagur 17. apríl 2007 kl. 10:08

Reiknikúnstir og raunveruleiki

Júlíus Jónasson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hefur gert athugasemdir við hugmyndir mínar um hugsanlegar tekjur Eldfjalla- og auðlindagarðs á Reykjanesskaga, en á vef HS er eftirfarandi haft eftir Júlíusi:
„Þar eru tekjur sagðar um 5 milljarðar íslenskra króna, en tekjurnar virðast einungis nema 7 milljónum dala, sem myndu samsvara tæpum 500 milljónum.”
Rétt er að rekstrarfé Eldfjallagarðsins á Hawaii nam tæpum 500 milljónum á síðasta ári eða sem samsvarar ½ kaffibolla á mann á íslensku verðlagi, þar sem gestir voru 3, 3 milljónir. Tekjur vegna starfsemi innan garðsins var hins vegar margföld sú upphæð, lauslega áætlað um 5 milljarðar vegna ýmissar þjónustu.

Gjaldeyristekjur vegna erlendra ferðamanna á Íslandi námu, samkvæmt upplýsingum frá  Samtökum ferðaþjónustunnar námu 46,8 milljörðum króna. Að meðaltali eyddi hver erlendur ferðamaður um 12.000 krónum á sólarhring meðan á dvöl hans stóð á landinu.

Markmiðið með Eldfjalla- og auðlindagarði á Reykjanesskaga er að bjóða upp á  svo áhugaverða möguleika að sem flestir ferðamenn velji að eyða þar einum degi og skapi þar með mikla tekjumöguleika fyrir sveitarfélögin sem eiga aðild að garðinum. Ef 100.000 ferðamenn velja að dvelja dag í Eldfjalla- og auðlindagarðinum má því gera ráð fyrir að tekjur af þeim verði varla minni en 1,2 milljarðar króna. 

Ef svo heldur fram sem horfir í aukningu ferðamanna á næstu árum getur sú upphæð orðið mun hærri með góðri uppbyggingu á áhugaverðri afþreyingu auk tekna vegna uppbyggingar alþjóðlegs háskóla og þekkingarsetra.
Til að vel takist til um Eldfjalla- og auðlindagarðinn þarf samstarf allra hagsmuna aðila. Hitaveita Suðurnesja er mikilvægur þátttakandi í því starfi.

Með kveðju,
Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024