Bilakjarninn
Bilakjarninn

Aðsent

Reglur skattalaga um skattlagningu reiknaðs endurgjalds og úttektir úr hlutafélögum
Mánudagur 23. ágúst 2004 kl. 16:22

Reglur skattalaga um skattlagningu reiknaðs endurgjalds og úttektir úr hlutafélögum

Í ársbyrjun 2002 tóku í gildi breytingar á lögum um tekju- og eignaskatt.  Meðal breytinganna voru ákvæði um reiknað endurgjald, lækkun tekjuskatts einka- og hlutafélaga, hér eftir kölluð hlutafélög, úr 30% í 18% og úttekt fjármuna úr hlutafélögum.  Umfjöllunin á eingöngu við um skattalega meðferð hlutafélaga.

Reiknað endurgjald

Í 58. gr. skattalaganna segir að reiknað endurgjald eiganda hlutafélags skulu eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila.   Eigendur einkahluta- og hlutafélaga sem starfa við eigið fyrirtæki er því skylt að reikna sér laun í samkvæmt viðmiðunarreglum sem fjármálaráðherra gefur út, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra.  Hér er um að ræða lágmarkslaun miðað við dagvinnu, en sé vinnuframlag meira þarf að reikna laun til samræmis við það.  Hafi aðili ekki reiknað endurgjald samkvæmt viðmiðunarreglum hefur skattstjóri heimild til að endurákvarða reiknuð laun viðkomandi.  Við þá breytingu eru launin í skattframtali hækkuð upp í viðmiðunarfjárhæðina og af þeim reiknast staðgreiðsla 38,58%, lífeyrissjóður 10% (4% hlutur einstakling og 6% framlag atvinnurekanda) og tryggingagjald 5,73%.  Við þessar breytingar getur gjaldahækkunin orðið yfir 50% og er því um verulega hagsmuni að ræða.  Nýlega hófu skattstjórar að gera fyrirspurnir um laun starfsmanna og eigenda hlutafélaga og hefur nú þegar verið úrskurðað í nokkrum málum.

Skattstjóra er hins vegar heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðurarreglur kveða á um, m.a. vegna umfangs og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem þetta á við.

Nánari upplýsingar um viðmiðunarreglur er að finna á heimasíðu ríkisskattstjóra www.rsk.is  -  reiknað endurgjald.

Lækkun tekjuskatts
 
Ávinningur einkahluta- og hlutafélaga við lækkun tekjuskatts úr 30% í 18% er töluverður.  Með viðmiðunarreglum reiknaðra launa er verið að koma í veg fyrir að aðilar reikni sér mjög lág laun, þar sem þeim ber að greiða 38,58% skatt, og láti félagið bera hagnaðinn sem greiðir 18% tekjuskatt.   Síðan er arði úthlutað til eigenda sem ber 10% fjármagnstekjuskatt. 

Af launum einstaklinga reiknast útsvar sem er stærsti tekjuliður sveitarfélaga og er því hagur þeirra nokkur með tilkomu viðmiðunarreglna reiknaðra launa.  Tekju- og eignarskattur einkahluta- og hlutafélaga svo og fjármagnstekjuskattur rennur hins vegar til ríkissjóðs. 

Lánveitingar

Lánveitingar hjá einkahluta- og hlutafélögum eru skipt upp í tvo flokka samkvæmt skattalögunum.  Annars vegar er um að ræða “óheimilar lánveitingar” og hins vegar “ólöglegar úttektir”.  Óheimilar lánveitingar einkahluta- og hlutafélaga eru úthlutun verðmæta til starfsmanna.  Oftast er um að ræða starfsmenn eigin fyrirtækja.  Hafi starfsmaður fengið slíkt lán telst það til launa starfsmannsins.  Af þeim launum reiknast staðgreiðsla, lífeyrissjóður og tryggingagjald.  Heimilt er að færa þessi laun, lífeyrissjóðsframlag og tryggingagjald til gjalda hjá félaginu.  Oftast er um að ræða að eigendur hafa verið að taka fjármuni úr félagi sínu um nokkurt skeið og hefur það safnast saman á nokkrum árum.  Talsverðar fjárhæðir kann því að vera um að ræða og þegar greiða þarf staðgreiðslu, lífeyrissjóð og tryggingagjald sem er samtals yfir 50% af óheimilu lánveitingunum.  Ólögleg úttekt er úthlutun verðmæta til hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra.  Slík lán teljast til gjafa hjá viðkomandi og reiknast staðgreiðsla af gjöfinni.  Samkvæmt 50. gr. skattalaganna teljast slíkar gjafir ekki til rekstrarkostnaðar og er því með öllu óheimilt að gjaldfæra “gjöfina” í rekstur félagsins.   Einstaklingurinn greiðir fullan skatt af þessu en félagið nýtur ekki skattahagræðis þar sem þetta er ekki frádráttarbær kosntaður hjá því.

Heimildir skattstjóra eru mjög viðtækar og hefur skattstjóri heimild til að breyta skattframtölum til samræmis við viðmiðunarreglur reiknaðs endurgjalds og ólögmætra úttekta fjármuna.
Hér hefur verið lýst almennum reglum um skattlagningu reiknaðs endurgjalds og úttektar fjármuna úr hlutafélögum.   Umfjöllunarefnið er flókið og ekki gert að fullu skil í þessari stuttu grein.  Eigendum hlutafélaga eru hvattir til að kynna sér stöðu sína gagnvart reiknuðu endurgjaldi og úttektir úr sínum félögum.

Frekari upplýsingar veitir Jón Þ. Jóhannsson hjá PricewaterhouseCoopers í síma 420-5300.


Jón Þorsteins Jóhannsson
PricewaterhouseCoopers

Bílakjarninn
Bílakjarninn