Raunsæi og ábyrgð eru réttu orðin
„Vonleysi er ekki rétta orðið til að lýsa þeirri miklu vinnu sem á sér stað til að svara nýrri kröfu eftirlitsnefndar um skuldahlutfall,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Þannig svarar hann umfjöllun Viðskiptablaðsins og fréttastofu RÚV nú í morgun um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og vill láta svo líta út að fréttin snúist fyrst og fremst um nýjar reglur og þá vinnu sem til þarf til aðlögunar, frekar en þann napra veruleika hver skuldastaðan er. Skuldirnar eru það miklar að undan því verður ekki komist að selja það sem eftir er af eigum bæjarins til þess það eigi yfirleitt að vera möguleiki á að bjarga stöðunni eftir valdasetu hans og meirihluta hans undanfarin ár. Svo slæm er staðan. Raunsæi er rétta orðið.
Bæjarstjórinn talar um sérstöðu Reykjanesbæjar, sem á að vera að bærinn á miklar eignir utan lögbundinna verkefna sveitarfélagsins. Land á Reykjanesi, eign á bankabók, eignarhluta í fyrirtækjum og skuldabréf. Gleymir að vísu Stekkjakoti , sem fljótt á litið virðist vera eina eign bæjarins sem enn virðist veðbandalaus, nema svo sé. Sérstaðan er þrátt fyrir útskýringar bæjarstjórans að skuld hvers bæjarbúa er helmingi hærri en þekkist í nokkru öðru bæjarfélagi.
Í raun er staðan svo skelfileg að þrátt fyrir að unnt væri að losa um allar þær eigur sem bæjarstjórinn telur til batnar skuldastaðan þannig að í stað 60 ára greiðslutímabils verður það í besta falli 30 ár. Og vel að merkja þá er bærinn orðinn algerlega eignalaus að undanskildu Stekkjakoti. Lítum aðeins á stöðuna.
Landinu á Reykjanesi sem talað er um í svari bæjarstjóra Reykjanesbæjar er þessa dagana verið verja til greiðslu vangreidds fjármagnstekjuskatts vegna sölunnar á Hitaveitu Suðurnesja. Ekki er einu sinni víst að það nægi til greiðslu þeirrar skuldar.
Þá eign sem tekin er fram á bankabók er hægt að núllstilla. Því það er jafnframt lán sem tekið var á sínum tíma í tilraunum til að bjarga Sparisjóðnum sáluga.
Ekki verður séð miðað við núverandi ástand að skuldabréf það sem bærinn fékk vegna sölunnar á HS Orku sé jafn auðseljanlegt og meirihlutinn hefur látið að liggja, né heldur hvert raunverulegt verðmæti þess kann að vera komi til sölu þess fyrir gjalddaga.
Eignarhluturinn í HS Veitum getur varla talist til söluvænnar vöru. Rekstur þess fyrirtækis er háð lögum til verndar neytendum og lög um arðsemi slíkra fyrirtækja gefur ekki tilefni til að þar sé um arðvænlegan fjárfestingakost að ræða.
Bæjarstjórinn velur í svari sínu að sleppa allri umfjöllun um eignarhlut bæjarins í Fasteign ehf. Enda ljóst að sá eignarhlutur er tapaður. Hundruðir milljóna farnar í súginn, þó enn hafi það tap ekki verið fært til bókar. Reynt er að ná samningum við lánadrottna Fasteignar,þar sem gert ráð fyrir að jafnvel komi til greina að íbúar Reykjanesbæjar taki á sig hluta af skuldum Álftanes, eins og fram kom í fréttum Rikisútvarpsins nýverið. Maður spyr hver verður staða bæjarins að loknum þeim samningum?
Niðurstaðan er sú að jafnvel þó allar þessar eignir yrðu seldar á hæsta verði er ljóst að áfram verður Reykjanesbær skuldsettasta sveitarfélag landsins, en nánast eignalaust. Sú er arfleið þeirra meirihluta sem bæjarstjórinn hefur farið fyrir undanfarin ár. Vonleysi er ekki rétta orðið, bjartsýni ekki heldur. Raunsæi og ábyrgð eru þau nýyrði sem bæjarstjórinn þyrfti að grípa til um leið og hann hefur kynnt sér merkingu þeirra orða. Raunsæi til þeirrar stöðu sem er uppi og ábyrgð gagnvart íbúum bæjarins sem greiða þurfa þær skuldir sem stofnað hefur verið til.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson