Ragnheiður Jónsdóttir - minning
Ragnheiður JónsdóttirFæddist að Botni í Dýrafirði 9.september 1909.Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Garðvangi 19.mars sl.Útför hennar fór fram frá Keflavíkurkirkju 24. mars.Elskuleg vinkona mín Ragheiður Jónsdóttir hefur kvatt þennan heim. Kynni okkar Rögnu hófust þegar ég hafði nýlega hafið störf hjá Kaupfélagi Suðurnesja vorið 1957. Ég hóf störf hjá föður mínum sem þá var verslunarstjóri í versluninni á Hringbraut 55 í Keflavík. Þetta var nýleg verslun og fyrsta kjörbúðin á Suðurnesjum. Líklega mánuði eftir að ég hóf störf tók Ragna við af föður mínum sem verslunarstjóri og hélst það fyrirkomulag í nokkur ár að faðir minn Stefán sá um verslunina frá hausti og fram á vor, en Ragna stjórnaði svo yfir sumarmánuðina. Ég var í skóla á Laugarvatni að vetrinum, en fékk sumarvinnu í þessari verslun Kaupfélagsins. Þá lágu leiðir okkar Rögnu saman að sumrinu í búðinni. Líklega voru þetta tvö sumur sem við unnum þarna saman og við bundumst þarna slíkum tryggðarböndum að uppfrá því höfðum við alltaf mjög náið samband og vinátta okkar hélst óslitin síðan. Á þessum árum bjó ég hjá Rögnu hluta úr tveimur sumrum. Það er í raun einstakt að minnast þess hve gaman var alltaf í vinnunni hjá okkur. Ragna var þarna stjórnandi yfirleitt með okkur þrjá unglinga með sér 15 til 17 ára. Hún var mikill félagi okkar og tók þátt í ærslum okkar og uppátækjum eins og ein af okkur. Glettni og gamansemi var henni í blóð borin og hún hafði einstakt lag á ungmennum. Ég veit að hún hafði ákaflega gaman af því að starfa með yngra fólki og var alltaf jafn ung í anda. Ég get fúslega viðurkennt það að aldrei á minni starfsævi hefur verið jafn skemmtilegt í vinnunni eins og á þessum tíma þegar við baldnir unglingarnir unnum með henni Rögnu. Ragna var samt alltaf stjórnsöm og ákveðin við okkur, hún vildi að allir stæðu sig í vinnunni og hlutirnir gengju fyrir sig eins og til var ætlast. Sjálf var hún mikill dugnaðarforkur og bjó yfir miklum krafti sem birtist í störfum hennar. Léttleikinn og grínið var samt alltaf skammt undan. Þannig gat hún tekið fullan og virkan þátt ungæðingslegum uppátækjum okkar. Hún gat svo verið mjög ákveðin í skoðunum og lét oft skoðanir sínar í ljós umbúðalaust. Hún var mikill vinur vina sinna og jafnframt öflugur málsvari þeirra sem minna máttu sín í þjóðfélaginu. Þeir sem höfðu gert henni greiða eða henni þótti hafa reynst sér vel, gleymdi hún aldrei.Það var því góður skóli að hefja sinn starfsferil við þessar aðstæður, þar sem svo skemmtilega var blandað saman mátulegu gamni og svo alvöru starfsins.Á seinni árum leyndist ekki áhugi hennar fyrir velgengni barna sinna og barnabarna.Og í heimsóknum til hennar þá urðu umræðuefnin oftar en ekki tengd afkomendunum, störfum þeirra og áhugamálum.Í minningunni verður hún Ragna alltaf einstök, engri lík.Ég á ótrúlega margar ljúfar minningar tengdar okkar samstarfi og samverustundum.Ég minnist alls hlýhugs og umhyggju fyrir mér og fjölskyldu minni og áhuganum sem hún hafði alltaf fyrir starfi mínu og gengi Kaupfélagsins sem hún hafði helgað starfskrafta sína í fjölda ára.Elskulegri vinkonu minni þakka ég samfylgdina og einstaka vináttu.Sonum hennar , barnabörnum og öðrum ættingjum votta ég innilega samúð.Guðjón Stefánsson