Ragnheiður Elín sækist áfram eftir 1. sætinu í Suðurkjördæmi
Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, gefur kost á sér til þess að leiða lista flokksins áfram í kjördæminu. Ragnheiður Elín lýsti þessu yfir á fundi kjördæmisráðs Suðurkjördæmis á Höfðabrekku í Mýrdal um helgina þar sem ákveðið var prófkjör yrði haldið 26. janúar nk.
Suðurkjördæmi er nú orðið sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu og hefur flokkurinn jafnt og þétt verið að styrkja sig á þessu kjörtímabili. Í Þjóðarpúlsi Gallup í september sl. ber Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi höfuð og herðar yfir aðra flokka og mælist með 43.11% fylgi.
„Vísbendingar um sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eru afar ánægjulegar, en markmiðið er að sjálfsögðu að tryggja slíka útkomu í kosningunum 27. apríl. Ég leyfi mér að fullyrða að það er mikilvægt fyrir þjóðina, en beinlínis lífsnauðsynlegt fyrir íbúa Suðurkjördæmis, að stefna Sjálfstæðisflokksins í skatta- og atvinnumálum komist í framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur leynt og ljóst unnið gegn hagsmunum kjördæmisins í hverju málinu á fætur öðru og komið í veg fyrir uppbyggingu og framfarir. Nægir að nefna tjónið sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir vegna vanhugsaðra breytinga ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, öll ónýttu tækifærin í orkunýtingu og uppbyggingu orkufreks iðnaðar í kjördæminu og nú síðast það rothögg sem ferðaþjónustufyrirtækjum er veitt með gríðarlegri hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Allar þessar aðgerðir hafa komið illa niður á fyrirtækjum og fjölskyldum í kjördæminu sem að auki þurfa að glíma við minni kaupmátt og ófullnægjandi lausnir vegna skuldamála. Þessu þarf að breyta og þessu vil ég breyta.
Ég býð fram krafta mína til þess að leiða flokkinn áfram í kjördæminu til þess að vinna af öllu afli að þessum málum sem og öðrum sem brenna á íbúum Suðurkjördæmis. Ég hlakka til baráttunnar og áframhaldandi góðs samstarfs við allt það góða fólk sem í kjördæminu býr.“
Reykjanesbæ, 15. október 2012
Ragnheiður Elín Árnadóttir