Ragnheiður Elín í 1. sæti – tökum þátt í prófkjörinu 26. janúar
Það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa framkvæmdamanneskju í forystu í Suðurkjördæmi. Það skemmir heldur ekki fyrir að þessi sami einstaklingur, Ragnheiður Elín, er Suðurnesjamaður. Af fjölda mála ætla ég að nefna tvö dæmi máli mínu til stuðnings.
Störf ungs fólks á Keflavíkurflugvelli voru í hættu:
Það kom eins og blaut tuska í andlit okkar þegar tilkynnt var í maí sl. að 70 ungmenni af Suðurnesjum sem ráðin höfðu verið í flugtengd störf á Keflavíkurflugvelli en höfðu ekki náð 18 ára aldri myndu ekki fá vinnu sem búið var að ráða þau í. Könnun á bakgrunni þessara ungmenna sem og annarra sem ekki hafa náð 18 ára aldri var ekki heimil. Þetta kom fram stuttu áður en þau áttu að hefja störf og ekki bara það, fjöldi þeirra hafði hafnað öðrum störfum.
Þegar ég frétti af þessu frá fyrstu hendi, hringdi ég í Ragnheiði Elínu til að fá upplýsingar um þessa stefnubreytingu hjá stjórnvöldum. 15 mínútum síðar hringdi Ragnheiður Elín í mig, hafði þá gengið í málið, upplýst ráðherra og rætt við nefndarformann og fleiri sem um málið höfðu að segja og sagði að allir væru jákvæðir um að gera breytingar á þessu ákvæði og skipti þarna máli að bregðast hratt við. Frumkvæði Ragnheiðar Elínar í málinu var kröftugt og til fyrirmyndar. Bæta má við Ögmundur Jónasson ráðherra tók erindi hennar vel og kláraði málið.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja:
Annað nýlegt dæmi er fjárskortur Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ragnheiður Elín gekk vasklega fram og hef ég heyrt í nokkrum aðilum tengdum skólanum sem hafa hampað hennar framlagi og baráttu. Mikilvægt var hversu vel hún setti sig inní málin og gat því barist með hagsmuni skólans inni á þinginu. Flestir eru sammála um að framgangur hennar í þessu máli skipti gríðarlega miklu máli.
Hvað skiptir okkur máli?
Það skiptir máli að hafa manneskju sem framkvæmir í framvarðarsveit í málum sem snertir okkur öll. Einnig er mikilvægt þegar hefja þarf endurreisn heimila og atvinnulífs að hafa öflugan málsvara í nýrri ríkisstjórn. Ragnheiður Elín Árnadóttir þarf stuðning okkar allra í 1. sæti svo rödd Suðurnesja heyrist skýrt og það sem mestu skiptir... að orðum fylgi athafnir.
Margrét Sanders