Ragnheiður Elín - öflug forystukona úr Reykjanesbæ
- Aðsend grein frá stuðningsmönnum
Næstkomandi laugardag, þann 10. september, fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Síðustu tvö kjörtímabil hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir úr Reykjanesbæ, leitt listann farsællega og sækist nú eftir því að gera það áfram. Ragnheiður Elín hefur sýnt það að hún er öflugur forystumaður og frá því að hún tók við sem leiðtogi flokksins í kjördæminu hafa henni verið falin ábyrgðamikil störf fyrir hans hönd, fyrst sem þingflokksformaður og síðar sem ráðherra, en Ragnheiður er fyrsti ráðherrann sem kemur úr Reykjanesbæ.
Hún er nú þegar orðin ein mesta forystukonan í sögu Sjálfstæðisflokksins, fyrst kvenna til að verða ráðherra fyrir landsbyggðakjördæmi og eina konan í sögu flokksins sem hefur leitt framboðslista oftar en einu sinni í þingkosningum. Það var mikil gæfa fyrir okkur íbúa Reykjanesbæjar, og Suðurnesja allra, að hún skyldi taka við sem ráðherra atvinnumála við upphaf kjörtímabilsins, því hér var ástandið í atvinnumálum það langversta á landinu og úrlausn þeirra það sem kallað var hæst eftir fyrir síðustu kosningar.
Nú er staðan sú að atvinnuleysið er í sögulegu lágmarki, komið undir landsmeðaltal í fyrsta skipti í fjölda ára, og fjölbreytt störf hafa orðið til á þessum rúmlega þremur árum. Umhverfi atvinnulífsins hefur tekið stakkaskiptum og enn og aftur sést að það skiptir máli að hafa í forystu fólk sem lætur verkin tala. Þannig forystumaður er Ragnheiður Elín. Mætum öll og styðjum við okkar konu nú á laugardaginn í fyrsta sætið. Það skiptir máli.
Björk Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri
Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri
Aron Ingi Valtýsson, formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ
Páll Orri Pálsson, varaformaður Heimis