Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Ragnheiði Elínu til áframhaldandi forystu
Föstudagur 9. september 2016 kl. 17:11

Ragnheiði Elínu til áframhaldandi forystu

Ég hef til nokkurra ára fylgst með störfum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ekki síst eftir að hún varð ráðherra orkumála sem er sá geiri sem ég hef starfað hvað lengst í.

Ragnheiður Elín er einstaklega kraftmikil og dugleg í sínum störfum og hefur mikinn áhuga á þeim málaflokkum sem henni er treyst fyrir. Þetta hef ég séð svo glöggt í orkumálunum. Þar hefur Ragnheiður verið ötull talsmaður þeirra hugsjóna sem við í Auðlindagarðinum á Reykjanesi störfum eftir og talað fyrir þeim víða um heim þar sem hún hefur leitt íslenskar sendinefndir úr orkugeiranum.

Ég var með Ragnheiði í einni slíkri ferð í Nicaragua í Mið-Ameríku. Þar hafa stjórnvöld það á stefnuskrá sinni að nýta þær gríðarlegu orkuauðlindir sem þeir eiga til að bæta lífskjör þar í landi og hafa litið til okkar Íslendinga sem fyrirmynda í þeim efnum. Hvar sem Ragnheiður kom í þessari ferð mælti hún af miklum skörungskap og á einstaklega góðu máli, af þekkingu og ástríðu. Hún hafði ekki minni áhrif á ráðamenn landsins en þeir sérfræðingar sem voru með í för og það mátti allsstaðar sjá af hve mikilli athygli menn hlustuðu. Þetta skiptir máli og það er svona sem ég vil hafa mína stjórnmálamenn.

Ég hef einnig átt prýðisgott samstarf við Ragnheiði í gegnum íslenska jarðhitaklasann, hvar ég gegni forystu og fór hún meðal annars til Ástralíu á heimsráðstefnu jarðhitageirans og tók þar formlega við keflinu fyrir okkar hönd fyrir næstu ráðstefnu sem verður hér á landi árið 2020. Áhuginn og stuðningurinn sem Ragnheiður Elín sýndi okkur í því máli hafði að mínum dómi mikið um það að segja að Ísland var valið til að halda næstu ráðstefnu. Það þarf ekki mörg orð um áhrifin sem slík ráðstefna hefur á þá sem hér starfa í þessum geira og á útflutning þeirrar þekkingar sem hér hefur safnast upp í gegnum árin.
Ég styð Ragnheiði Elínu til áframhaldandi forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Hún hefur reynst okkur afar vel sem þingmaður og ráðherra og hefur verið einn ötulasti ráðherra á sviði nýsköpunar sem Ísland hefur átt.

Albert Albertsson
Reykjanesbæ

Public deli
Public deli