Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rafrænt einelti
Miðvikudagur 28. janúar 2009 kl. 09:21

Rafrænt einelti



Einelti er samfélagsvandamál sem hefur alltaf verið til og verður líklega alltaf til meðal manna. Það þarf ákveðin skilyrði og þrífst í aðgerðarleysi fjöldans. Sérstaklega þar sem afskiptaleysi og sinnuleysi er mikið og þar sem ekki er tekið á málum. Það eru ekki einungis fagmenn og fræðingar sem geta fjallað um málið og brugðist við því heldur þarf fjöldinn að taka það að sér og almenningur að láta sig það varða. Sérstaklega þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um hvað einelti er og hvernig það lýsir sér á hverjum tíma til að geta brugðist við því.


Rannsóknir hafa sýnt að einelti er að einhverju leyti að færast úr skólum yfir í netheima þar sem börn og unglingar eiga samskipti á ýmsum félagsnetsíðum t.d. Myspace eða  Facebook og nota  þau bloggsíður, MSN og spjall til að gera lítið úr öðrum einstaklingum.  Einelti á netinu getur m.a. birst í formi yfirlýsinga, skyndiskilaboða, tölvupósts og á heimasíðum. Það getur komið fram í myndatexta, þar sem sett er mynd eða myndir á netið og þeim sem vilja boðið að setja niðrandi texta við myndirnar. Til eru dæmi þess að bloggsíður hafi verið settar upp eingöngu til að niðurlægja ákveðinn einstakling, einnig eru hatursfull og niðrandi skilaboð skrifuð í dagbækur eða athugasemdadálka. Dæmi eru um að fólk noti líka farsíma til að áreita eða hræða aðra með óviðeigandi símtölum, textaskilaboðum eða myndum. Það er mikið í húfi og að foreldrar kynni sér öruggari netnotkun og forvarnir í þessu samandi.


SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) er verkefni á vegum Heimilis og skóla sem vinnur að vakningarátaki um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB. Í könnun SAFT frá árinu 2007 segjast rúm 16% barna hafa fengið sendan tölvupóst sem olli þeim áhyggjum eða hræddi þau, sú tala var rúm 13% í könnun árið 2003. Helmingi líklegra er að stúlkur fái slíkan póst en drengir. Um 15% barna segjast hafa orðið fyrir áreitni, strítt, ógnað eða farið hjá sér í gegnum spjall á netinu síðustu 6 mánuði áður en könnunin var gerð en 10% árið 2003. Meðalaldur netnotenda fer lækkandi, börn byrjuðu að meðaltali 8,7 ára að nota netið 2003 en árið 2007 var sú tala komin niður í 7.7 ára, og drengir byrja yngri en stúlkur að nota netið. Tæp 30% barna sem tóku þátt í könnuninni 2007 segjast hafa orðið fyrir því að einhver sem þau þekkja bara af netinu hafi beðið þau um að hitta sig utan netsins. sjá www.saft.is og www.heimiliogskoli.is


Í tilefni af Alþjóðlega Netöryggisdeginum, þriðjud. 10. febrúar n.k.stendur SAFT fyrir opnu málþingi um rafrænt einelti. Málþingið er haldið  í Skriðu  HÍ (Kennaraháskólanum) við Stakkahlíð í Reykjavík kl.14.30 og eru allir velkomnir.  Nemendur, foreldrar, starfsmenn skóla og allir sem áhuga hafa og vilja láta málið til sín taka eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í málþinginu.


Helga Margrét Guðmundsdóttir

Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra



Hér að neðan eru netorðin:

10 Netheilræði SAFT
1.    Uppgötvið Netið saman
2.    Gerðu samkomulag við barnið um netnotkun á heimilinu
3.    Hvettu barnið til að vera gætið þegar það veitir persónulegar upplýsingar
4.    Ræddu um þá áhættu sem fylgir því að hitta netvin
5.    Kenndu barninu þínu að skoða efni á Netinu með gagnrýnum hætti
6.    Haltu vöku þinni – það er vel hugsanlegt að barnið rekist á efni á Netinu einungis ætlað fullorðnum
7.    Komdu upplýsingum um það sem þú telur ólöglegt efni til réttra yfirvalda
8.    Hvetjið til góðra netsiða
9.    Kynntu þér netnotkun barnsins þíns
10.     Mundu að jákvæðir þættir Netsins eru mun fleiri en hinir neikvæðu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024