Rafrænn útivistartími – hvað gera börnin á netinu?
Anna Hulda Einarsdóttir skrifar.
Uppeldi getur verið krefjandi verkefni, sumt í uppeldinu reynist okkur auðvelt á meðan annað virðist erfitt og flókið. Við höfum þekkingu á mörgu, lesum greinar, horfum á myndbönd, hlustum á fagfólk og tölum við vini og vandamenn.
Sem uppalendur erum við bundin lögum og opinberum reglum að einhverju leyti og slíku ber að fylgja, það eru fáir í vafa um það. Útivistartími barna eru opinberar reglur þess vegna er auðvelt að fylgja þeim sama hvað barnið okkar segir, við viljum ekki vera lögbrjótar.
Umræðan um útivistartíma barna stendur hvað hæst á haustmánuðum. Það er mikilvægt að foreldrar standi saman og virði útivistartímann sama hvað tautar og raular. Hver kannast ekki við staðhæfingar eins og „þú ert eina foreldrið sem fylgir þessum reglum“.
Þá er komið að máli málanna; hvar eru börnin okkar eftir að útivistartíma lýkur? Sem betur fer eru engar opinberar reglur sem kveða á um hvað við eigum að gera með börnunum okkar eftir að útivistartíma lýkur. En frelsi fylgir ábyrgð og við sem foreldrar berum ábyrgð á velferð barnanna okkar og sumt af því sem börn aðhafast á internetinu stuðlar síður en svo að velferð þeirra.
Umræðan um rafrænan útivistartíma hefur aðeins verið í deiglunni undanfarið enda um mikilvægt málefni að ræða. Margir foreldrar eiga erfitt með hið miklvæga samtal við börnin sín um netheima, vegna vanþekkingar á tölvuumhverfinu og þeim hættum sem þar kunna að leynast. Engu að síður er það á ábyrgð foreldra að setja börnunum sínum mörk, vera fyrirmyndir og geta rætt af einhverri þekkingu og áhuga um það sem börnin eru að fást við á netinu. Besta vörnin er þekking á viðfangsefninu, að setja sig inn í netheim barnsins síns, kynna sér þær síður og forrit sem börn/unglingar sækja. Sýna virkan áhuga og sækja sér þekkingu.
Fjölskyldusetur Reykjanesbæjar stendur þessa dagana fyrir fræðsluerindi um ábyrga netnotkun. Fræðslan er tvíþætt, annars vegar heimsækir Hafþór Birgisson tómstundafulltrúi 5. bekk í hverjum skóla og ræðir við nemendur um ábyrga netnotkun. Hins vegar er Hafþór með fræðslu fyrir foreldra nemenda í 5. bekk um sama efni og umræður um það hvað það er sem börnin eru að gera á netinu. Næsta fræðsla verður í byrjun nóvember og verður auglýst í grunnskólunum og á Facebooksíðu Fjölskylduseturs.
Hægt er að nálgast gagnlegt efni á eftirfarandi síðum:
saft.is
barnaheill.is
neteinelti.is
netöryggi.is
Stöndum saman – sýnum ábyrgð
Anna Hulda Einarsdóttir
Umsjónarmaður Fjölskylduseturs Reykjanesbæjar