Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rafrænn reykur
Sunnudagur 11. desember 2011 kl. 14:50

Rafrænn reykur

Í þessari viku eru heil átján ár síðan ég slökkti í síðustu sígarettunni. Gerði það daginn sem ég varð þrítugur. Gat ekki hugsað mér, með þrjú börn í heimili, að svæla í kringum þau eins og enginn væri morgundagurinn. Til þess voru þau mér alltof kær og falleg. Ég gaf þeim mitt loforð í afmælisgjöf. Síðasti smókurinn var eftirminnilegur og dreginn á miðnætti fyrir afmælisdaginn. Langur, heitur og yndislegur. En sá síðasti. Söknuður ríkti en frjálsræði og fyrirheit voru framundan. Það var tilhlökkun að vera laus við andskotann!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það vildi þannig til, að dag einn í gamla apótekinu á Suðurgötu, eftir daga Ellerup, beið ég eftir afgreiðslu lyfseðils og var litið í hillurekka, sem geymdi upplýsingabæklinga um ýmis heilræði. Einn þeirra var frá Krabbameinsfélaginu, sem hafði að geyma allt hið góða við það að vera laus úr viðjum vanans. Reykingar voru óhollar og mesta meinsemd. Hverju orði sannara og ekki hægt annað en að vitkast. Undirbjó mig í nokkra mánuði áður en ég lét til skarar skríða. Hafði reykt hálfa ævina og búinn að fá nóg. Síðan í gaggó, takk fyrir. Fékk mér kínverskt menthólkrem, sem ég bar á mig daglega ofan við efri vör og upp undir nasir. Tók þetta síðan á þvermóðskunni. Ég skal, ég verð!


Lagði fyrir ígildi pakka á dag og auðgaðist á ofurhraða. Hinir gelgreiddu útrásarvíkingar hefðu ekki gert betur í þá daga. Frelsið varð algert, brisið hætti að blóta og blómin fengu angan á ný. Kólesterólið hrapaði á einu ári niður fyrir viðmiðunarmörk. Forðaðist brælubræður- og systur, var a.m.k. eilítið fjær þeim en endranær. Börnin undu glöð við sitt og pabbinn greindist; reyklaus!


Á Alþingi liggur nú fyrir tillaga til þingsályktunar, um að takmarka aðgang að eitrinu í gegnum tóbaks seðla. Rafrænn reykur er framtíðin. Eitt símtal til heimilislæknis og kartonið er klárt í apótekinu. Í sama apótekinu og ég tók ákvörðunina um að hætta að reykja. Lyf & „heilsa“ fengi nýja merkingu í mínum huga. Allt gert í þágu ungmenna, sem enn hafa ekki tekið fyrsta smókinn eða vöndulinn í vörina. Ja, hérna hér!